Einn besti veitingastaður Selfoss opnaður á ný

Ívar Þór Elíasson yfirkokkur og eigandi Tryggvaskála.
Ívar Þór Elíasson yfirkokkur og eigandi Tryggvaskála. Ljósmynd/Aðsend

Veitingastaðurinn Tryggvaskáli á Selfossi hefur verið opnaður á ný og eru Ívar Þór Elíasson, Margrét Guðjónsdóttir og Tómas Þóroddsson eigendur að rekstrinum.

„Við erum að létta svolítið stemninguna og keyra á hressara og fjörugra andrúmsloft en áður. Við erum með úrval af góðum kokteilum og víni og matseðillinn okkar samanstendur af minni réttum sem eru fullkomnir til þess að deila. Þá má ekki gleyma eftirréttunum okkar sem eru bæði öðruvísi og skemmtilegir og auðvitað hrikalega góðir,“ segir Ívar Þór Elíasson yfirkokkur og eigandi Tryggvaskála.

Á matseðlinum er meðal annars að finna hvalatataki, nauta- og túnfisktartare, rækju- og grænmetistempura, hrossalund, lambaspjót, lax og andasalat svo eitthvað sé nefnt. Þá eru toasters einnig á seðlinum; eins konar opnir miniborgarar og hægt að fá í nokkrum útgáfum.

„Ég mæli með að fólk renni til okkar og fái sér einn Guðna Ágústsson í fordrykk, en Guðni Ágústsson er skemmtilegur kokteill sem við útbjuggum í samstarfi við Guðna sjálfan. Þá er ekki hægt að koma við án þess að smakka frábæra hvalatatakiið eða rækjutoastið okkar,“ segir Ívar Þór Elíassson.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert