Millimálið sem bjargar sumarfríinu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hver kannast ekki við endalausar bílferðir – nú eða gönguferðir – þar sem allir eru orðnir urrandi svangir og þig langar síst af öllu að kaupa enn eina pylsuna. Góð næring er nefnilega undirstaða vel heppnaðs ferðalags og því er mikilvægt að vera með nóg af góðu millimáli sem er alltaf hægt að grípa í.

Það er Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn af þessari uppskrift sem er í miklu uppáhaldi hjá henni sjálfri.

Hnetumolar með súkkulaði

 • 170 g Til hamingju-kasjúhnetur
 • 100 g Til hamingju-pekanhnetur
 • 70 g Til hamingju-graskersfræ
 • 60 g Til hamingju-þurrkuð trönuber
 • 50 g Til hamingju-tröllahafrar
 • 100 g hlynsíróp
 • 50 g púðursykur
 • 2 tsk. vanilludropar
 • ½ tsk. salt
 • 80 g suðusúkkulaði

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 175°C og setjið bökunarpappír í ferkantað mót sem er um 25 x 25 cm. Gott er að láta pappírinn ná upp fyrir kantana svo auðveldara verði að lyfta hnetublöndunni upp úr eftir bakstur til að skera hana.
 2. Hrærið hnetur, fræ, trönuber og tröllahafra saman í skál.
 3. Hitið síróp, púðursykur, vanilludropa og salt saman í potti þar til sykurinn leysist upp, takið af hellunni þegar blandan byrjar að sjóða.
 4. Hellið yfir hnetublönduna og blandið saman við með sleif.
 5. Þjappið í bökunarformið og bakið í 20 mínútur, leyfið að kólna í um 30 mínútur áður en þið lyftið blöndunni upp úr.
 6. Skerið niður í 16 bita á pappírnum án þess að taka í sundur. Bara gott að skera áður en blandan er fryst með súkkulaðinu.
 7. Bræðið súkkulaðið og dreifið því yfir hnetublönduna, setjið í frysti í um 20 mínútur og losið hnetumolana síðan í sundur og njótið.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is