Risotto eins og meistararnir gera það

Það er fátt sem toppar gott risotto og hér erum við með uppskrift sem bókstaflega getur ekki klikkað. Til að toppa herlegheitin fylgir með myndband sem sýnir okkur nákvæmlega hvernig við eigum að bera okkur að. Með risottoinu er síðan ómótstæðilegur lax en hann passar einstaklega vel með og klikkar aldrei!

Risotto eins og meistararnir gera það

Uppskrift fyrir tvo

Fiskur

  • 250 g lax
  • 25 g smjör
  • salt

Risotto

  • 150 g risottogrjón
  • 50 g skalottlaukur smátt skorinn
  • 100 ml rjómi
  • 200 ml vatn
  • 30 g smjör
  • 100 ml hvítvín
  • 50 g rifinn parmesanostur
  • 20 g graslaukur smátt skorinn
  • olía

Annað

  • 12 ferskir aspasstilkar í bitum
  • olía
  • smjör

Borið fram með

  • parmesan
  • sítrónu
  • ólífuolíu

Aðferð

  1. Hitið pönnu á miðlungshita og bætið olíu út á. Svitið skalottlauk á pönnunni. Bætið smjöri og risottogrjónum við og steikið í nokkrar mínútur. Passið að hræra vel svo grjónin brenni ekki við.
  2. Bætið hvítvíninu út á pönnuna og látið sjóða niður. Þegar nær allt hvítvínið er soðið niður er vatni bætt rólega saman við.
  3. Þegar vatn og hvítvín hefur soðið niður er rjómanum bætt við. Hrærið vel svo blandan brenni ekki við.
  4. Þegar risottoið er fullsoðið er parmesanosti og graslauk bætt út á pönnuna. Hrærið vel saman og takið pönnuna af hellunni.
  5. Kryddað með salti og pipar eftir smekk.
  6. Skerið u.þ.b. 5 mm skurði ofan í laxaroðið.
  7. Kryddið roðið með salti og pipar og steikið á miðlungshita með roðið niður í um tvær mínútur.
  8. Eftir tvær mínútur er smjöri bætt á pönnuna og fiskurinn steiktur í tvær mínútur til viðbótar á roðinu. Gott er að nota skeið til að hella smjörinu yfir fiskinn. Því næst má snúa honum og steikja í þrjár mínútur áður en hann er tekinn af pönnunni.
  9. Steikið aspasbita í smjörinu af laxinum og saltið eftir smekk.
  10. Berið fram með ólífuolíu, sítrónuberki og rifnum parmesanosti. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert