Svívirðilega góður kjúklingaréttur

Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson

Hér erum við að tala um kjúklingarétt eins og þeir gerast bestir. Bragðmikill og alls ekki flókinn. Það er meistarakokkurinn Eyþór Rúnarsson sem á heiðurinn af uppskriftinni sem enginn matgæðingur ætti að láta framhjá sér fara.

Heimasíða Eyþórs.

Teriyakisósa 

  • 100 ml vatn 
  • 100 ml sojasósa  
  • 3 msk hrígrjónaedik  
  • 55 g döðlur 
  • 1 hvítlauksgeiri (gróft skorin)
  • 30 g engifer (fínt rifið) 
  • 2 msk. hunang  

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið nema hunangið í pott og sjóðið við væga suðu í 30 mín.
  2. Bætið hunanginu út í og maukið allt saman með töfrasprota.

 Bakaðar kjúklingabringur í teriyakisósu

  • 4 stk. kjúklingabringur 
  • 2/3 af teriyakisósunni 

Aðferð:

  1. Veltið bringunum upp úr sósunni og látið þær standa í henni í ca 5 tíma.
  2. Setjið bringurnar í eldfast mót og inn í 150°c heitan ofn í 50 mín. eða þar til þær hafa náð 73°C kjarnhita. Takið þær svo út úr ofninum og setjið álpappír yfir bringurnar og látið þær standa í 15 mín. áður en þær eru bornar fram. Skerið þær svo í þunnar sneiðar og berið fram með afganginum af teriyakisósunni.

Núðlur í sesamsojadressingu með brokkólíi, gulrótum, papriku og rauðlauk

  • 50 ml sojasósa 
  • 2 msk. hunang
  • 2 msk. hrísrgjónaedik
  • 50 ml sesamolía 
  • 100 ml ólífuolía 
  • 1 hvítlauksrif 
  • 1/3 bréf kóríander

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í matvinnsluvél og maukið saman.


Núðlur 

  • 250 g eggjanúðlur 
  • 300 g gulrætur (skrældar og smátt skornar)
  • 1 haus brokkólí (smátt skorið)
  • 1 stk. rauð paprika (kjarnhreinsuð og skorin í þunna renninga)
  • 1/3 stk. rauðlaukur (fínt skorinn)
  • ½ bréf kóríander (gróft skorinn)
  • ólífuolía til steikingar
  • sjávarsalt 
  • svartur pipar úr kvörn

Aðferð:

  1. Hitið pönnu með vel af ólífuolíu og steikið allt grænmetið á miðlungshita í 10 mín. eða þar til grænmetið er eldað í gegn og kryddið með salti og pipar.
  2. Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka. Hellið vatninu af þeim og setjið þær á pönnuna með grænmetinu.
  3. Slökkvið á hitanum undir pönnunni og bætið 2/3 af dressingunni út á ásamt kóríandernum og blandið vel saman.
  4. Berið afganginn af dressingunni fram með núðlunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert