Ákvað að opna aftur eftir fjöldamargar áskoranir

Andri Már Jónsson hefur ekki undan að búa til taílenskan …
Andri Már Jónsson hefur ekki undan að búa til taílenskan mat ofan í gesti. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við bjóðum hér upp á taílenskan mat og sérstakan opnunarmatseðil til að byrja með,“ segir Andri Már Jónsson, eigandi Menam, en sá staður var áður til húsa á Eyrarvegi 8 á Selfossi.

„Staðurinn var áður í eigu tengdamóður minnar og stofnaður 1997 og var rekinn til 2018,“ segir hann. Ljóst er að Selfyssingar þekkja því staðinn vel og fagna að vonum opnuninni, en staðurinn hefur verið lokaður í þrjú ár. Kristín Árnadóttir, eða Stína í Menam, eins og margir þekkja hana, stóð vaktina í tuttugu ár en ákvað að hvíla sig á veitingarekstri.

„Eftir fjölmargar áskoranir ákvað ég að opna staðinn aftur, byggðan á sama grunni. Ég er matreiðslumeistari og lærði á Hótel Holti og kom inn á staðinn árið 2002 og hef starfað hjá Menam meira og minna síðan,“ segir Andri og segist yfir sig glaður með móttökurnar.

„Þetta hefur farið fram úr öllum væntingum og erum við mjög þakklát fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið. Það hefur komið fyrir að allt hafi hreinlega selst upp, en fólk hefur almennt sýnt því mikinn skilning. Við vinnum mest allt frá grunni og því getur það gerst að hráefni klárist, en eins og einn tryggur viðskiptavinur sagði, það væri ekkert mál, hann væri nú búinn að bíða eftir að fá Menam-mat í þrjú ár,“ segir Andri brosandi.

„Menam eins og það var áður var með fjölmarga rétti á matseðli, þannig að við höfum úr miklu úrvali að velja. Við stefnum á að vera með um tíu vinsælustu réttina í boði ásamt því að koma með aðra rétti inn tímabundið, þá einnig tengt árstíðabundnu hráefni úr nágrenninu.“

Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »