Vilja skapa danska stemningu í Urriðaholti

Davíð Sigurðsson og Alexander Sindrason.
Davíð Sigurðsson og Alexander Sindrason. mbl.is/Unnur Karen

Félagarnir Davíð Sigurðsson og Alexander Sindrason opnuðu hinn 20. júlí kaffihús og vínbar í Urriðaholti í Garðabæ. „Við erum búnir að vera lengi með bakteríuna í maganum að opna okkar eigið konsept sem við vorum að finna út hvað gæti verið. Svo þegar þetta húsnæði kom upp í Urriðaholti fannst okkur sniðugt að nýta rýmið í kaffihús og vínbar,“ segir Davíð Sigurðsson, annar eigandi Dæinn. „Alexander er mikill kaffikarl og ferðaðist um Suður-Ameríku til þess að fara í kaffiskóla og kynna sér kaffi, sjálfur hef ég verið meira í víninu og kokteilum og rak áður veitingastað niðri í bæ þannig að maður hefur smá reynslu í þessu.“

Nýtt og upprennandi hverfi

Davíð segir að nokkur atriði hafi átt þátt í ákvörðuninni um að opna staðinn í Urriðaholti; hverfið sé nýtt og upprennandi og Alexander, annar eigandinn, búi þar einmitt sjálfur og hafi þess vegna fylgst með uppgangi þess og stemningunni. „Svo býr mikið af ungu fólki hérna, stutt á milli húsa og fólk getur rölt og fengið sér nokkra drykki og rölt síðan aftur heim í stað þess að taka leigubíl eða koma sér heim úr bænum.“ Hann segir þá að þá hafi langað til að skapa stemningu í hverfinu þar sem fólk gæti gert sér smá dagamun og þetta yrði eins konar félagsmiðstöð fyrir íbúa hverfisins.

Dæinn, nýtt kaffihús í Urriðaholti.
Dæinn, nýtt kaffihús í Urriðaholti. mbl.is/Unnur Karen

Danskur innblástur

Davíð segir innblásturinn að staðnum fenginn frá Danmörku, þar sem hann hefur sjálfur búið síðastliðin fjögur ár. Þar sé oftast þétt setið á kaffihúsum og vínbörum og slíkir staðir séu oftast inni í hverfum, sem þekkist almennt ekki á Íslandi. „Þaðan kom innblásturinn með hvernig við vildum hafa þetta og hvernig við vildum láta staðinn líta út. Svo fengum við mikla hjálp hjá kærustunni minni, Unu Mjöll Ásmundsdóttur, sem var að læra arkitektinn úti í Danmörku.“ Davíð segir að nafn staðarins komi frá þeim félögum; þeir voru staðráðnir í að nýta íslenska bókstafinn æ, sem einnig er að finna í dönsku, og er ætlun félaganna að það verði ásýnd vörumerkisins. „Ég fékk síðan símtal frá Alexander þegar ég bjó úti í Danmörku og við vorum að velta fyrir okkur hvað við ættum að láta staðinn heita, þá spyr hann: „Hvað með Dæinn?“ Það varð síðan allt í einu að nafni sem við fíluðum báðir í tætlur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »