Hélt að þvottavélin væri ónýt en gerði óvænta uppgötvun

Góð þvottavél er gulli betri.
Góð þvottavél er gulli betri.

GÞS eða Gerðu það sjálf/ur eins og það kallast á móðurmáli voru er aðferð sem ansi margir eru hrifnir af enda hin besta skemmtun auk þess sem það sparar oft háar fjárhæðir.

Bilaðar þvottavélar geta reynt á þolrifin en oftar en ekki er hægt að fara á netið og fletta upp leiðbeiningum um hvernig bregðast skuli við þegar vélin bilar. Oft fylgja fyrirtaksmyndbönd eins og í tilfelli Siemens-vélar nokkurrar sem búið var að úrskurða ónýta á dögunum.

Húsfreyjan var þó ekki tilbúin að gefast upp enda forláta vél sem kostaði mikið og þykir ein sú besta í bransanum. Húsbóndinn var á öðru máli og taldi það ekki svara kostnaði að keyra með gripinn á verkstæði og fá reikning þremur vikum síðar sem slagaði hátt upp í kostnaðinn við að kaupa nýja vél.

Frúin var þó þrautseig og gúgglaði sig í gegnum viðgerðarmyndböndin og var komin með nokkuð skýra mynd af vandamálinu. Vélin var ekki að tæma sig og eitthvað stóð í vegi fyrir því. Búið var að fara í gegnum helstu bilanavalda og stíflustaði en sú leit skilaði engu. Fyrir einhverja rælni finnur frúin fyrirstöðu á ólíklegasta stað og í ljós kom að peningur hafði skorðað sig nákvæmlega í opið sem hleypti vatninu af og nánast ómögulegt að finna fyrir honum eða sjá. Með töluverðri lagni tókst að ná peningnum og er vélin alveg eins og ný.

Húsbóndinn taldi þetta mikinn happadag því ekki var nóg með að hafa sloppið við að kaupa nýja þvottavél heldur var peningurinn sem hafið stíflað vélina heilar tvær evrur og sem er nú töluvert.

Það er því oftar en ekki hægt að laga heimilistækin sjálf/ur ef þolinmæði og þrautseigja er fyrir hendi, gott netsamband og smá heppni.

mbl.is