Dásamlega einföld baka með bláberjum

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Guðrún Ýr á Döðlum & smjöri er hér með dásamlega uppskrift þar sem hún notar nýtínd bláber í böku. Hún segir uppskriftina afar einfalda og hvetur fólk til að prófa.

Bláberja-galette

Bökudeig

  • 160 g hveiti
  • 25 g sykur
  • 1 tsk. salt
  • 170 g smjör, kalt
  • 50 ml vatn, ískalt
  • 1 egg (til penslunar)
  • 1-2 msk. sykur (perlusykur)

Hægt er að notast við matvinnsluvél eða gera deigið í höndunum. Setjið hveiti, sykur og salt á borðið, gott er að hafa diskamottu undir til að vernda borðið. Skerið smjörið í bita og blandið saman við hveitið í þremur skömmtum. Hægt er að nota hnífa til að saxa smjörið saman við hveitið eða sköfu, smá þolinmæðisvinna en þess virði. Mixið saman þangað til smjörkornin eru orðin mjög smá. Bætið þá vatninu saman við smá í einu þangað til deigið er formað, ekki of þurrt en ekki of blautt. Mótið kúlu og þrýstið aðeins niður, setjið í plast og inn í ísskáp. Leyfið deiginu að hvíla í minnst 2 klst. Hægt er að geyma deigið í ísskáp eða í frysti ef það er gert fyrir fram.

Ef deigið er gert í matvinnsluvél er hveiti, sykur og salt sett saman í og smjörið skorið niður og sett saman við í þremur skömmtum þangað til það er orðið kornótt, alls ekki alveg samblandað því við viljum halda í litlu smjörblettina í deiginu, það er það sem gerir deigið stökkt eða „flaky“. Takið deigið úr matvinnsluvélinni og setjið á borð og hellið vatninu saman við og mótið þangað til það er ekki of þurrt en ekki of blautt. Framhald sjá að ofan.

Fylling

  • 350 g bláber
  • 100 g sykur
  • 40 g hveiti
  • börkur af einni sítrónu
  • 1 msk. sítrónusafi

Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið þau létt saman.

Samsetning

Stillið ofn á 210°C. Takið deigið úr kæli, setjið slatta af hveiti á borðið og takið deigið úr plastinu og á borðið. Byrjið að fletja það út með kökukefli með því að fletja alltaf í áttina frá ykkur og snúa deiginu um fjórðung jafnt og þétt svo deigið sé laust frá borðinu og jafn þykkt á alla kanta. Bætið hveiti undir ef þarf.

Þegar deigið er útflatt leggið það yfir kökukeflið og færið yfir á bökunarpappír. Penslið deigið með eggi, dreifið fyllingunni yfir það og skiljið u.þ.b. 3 cm eftir frá kanti, til að brjóta inn.

Penslið kantana með eggi og sáldrið sykri yfir. Setjið inn í ofn og stillið á 20 mínútur. Eftir 20 mín. er hitinn lækkaður í 175°C og bakað í 20 mín í viðbót.

Berið fram með rjóma eða vanilluís.

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert