Dýrðlegt pasta með kjúklingi

Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson

Hér erum við með uppskrift fyrir hreinræktaða sælkera því það er enginn annar en meistarakokkurinn Eyþór Rúnarsson sem á heiðurinn af henni.

Eyþór býr til pastað sjálfur en að sjálfsögðu er hægt að einfalda verkið með því að kaupa það í næstu búð. Kjúklingabollurnar eru svo alveg sér kafli út af fyrir sig og við mælum með að þið prófið ... þið munuð ekki sjá eftir því.

Dýrðlegt pasta með kjúklingi

Pastadeig

  • 250 g hveiti
  • 2 egg
  • 3 eggjarauður
  • 1 msk. ólífuolía
  • ½ tsk. salt

Setjið hveiti og salt saman í skál og blandið vel saman. Gerið holu í miðjuna á hveitinu og setjið egg, eggjarauður og ólífuolíu í holuna og blandið öllu varlega saman. Hnoðið deigið í höndunum og setjið svo í plastfilmu og inn í ísskáp í 1 klst. Fletjið svo út í pastavél eða með kefli í að minnsta kosti 2 mm þykkt. Skerið í þunnar ræmur og setjið í sjóðandi vatn með salti í ca 3 mín.

Kjúklingabollur

  • 550 g kjúklingalæri úrbeinað
  • 6 msk. brauðraspur
  • 2 msk. salvía (fínt skorin)
  • 2 msk. steinselja (fínt skorin)
  • 1 tsk. chili sambal oelek
  • ½ stk. hvítlauksrif (fínt rifið)
  • 1 msk. sjávarsalt

Skerið kjúklingalærin í eins smáa bita og þið getið. Setjið skorin kjúklingalærin með öllu hinu hráefninu saman í skál. Rúllið upp í ca 25-30 g bollur og setjið á bökunarplötu í 200 gráðu heitan ofninn í 20 mín.

Spínatsósa

  • 5 skallotlaukar (skrældir og gróft skornir)
  • 1 stk hvítlauksgeiri (skrældur og gróft skorinn)
  • 1 poki spínat (100 g)
  • ½ l rjómi
  • 3 msk grænmetiskraftur
  • safi úr ½ sítrónu
  • sjávarsalt
  • svartur pipar úr kvörn

Hitið pott með olíu í og steikið lauk og hvítlauk þar til hann er mjúkur. Bætið spínatinu út í ásamt rjómanum og sjóðið saman í 15-20 mín.

Maukið sósuna með töfrasprota eða í blenderkönnu og smakkið til með grænmetiskrafti, sítrónusafa, salti og pipar.

Meðlæti með bollum

  • steiktir portóbellósveppir
  • rifinn ferskur parmesanostur
  • rifið hrátt brokkólí
  • sítrónubátur
  • ristaðar furuhnetur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert