Eldhús Svönu fékk algjöra yfirhalningu

Glæsileg breyting á eldhúsi á Akureyri.
Glæsileg breyting á eldhúsi á Akureyri. Mbl.is/Mynd_aðsend

Á Akureyri býr Svana Rún Símonardóttir ásamt fjölskyldu sinni. Þau réðust í það stóra verkefni að endurgera eldhúsið og útkoman er æðisleg.

Húsið er frá árinu 1980 og því margt komið  á tíma. Eldhúsið var eitt af þeim verkefnum sem þau settu í fogang, en það var hólfað af með hlöðnum múrsteinsveggi – og alls ekki stórt. Eftir breytingar er eldhúsið um 20 fermetrar, rúmgott og bjart. Eyjan setur síðan punktinn yfir i-ið, en hún er tveir og hálfur meter á lengd með pláss fyrir fjóra barstóla – og þar er mikið setið, lært, leikið og spjallað yfir eldamennskunni.

„Við hjónin fengum húsið okkar afhent í byrjun desember og ákváðum að fara í framkvæmdir á um þrem vikum, en stefnan var að flytja inn fyrir jól. Fyrirhugað var að brjóta niður þrjá veggi til að opna upp rými milli eldhúss og stofum ásamt því að parketleggja allt og mála.  Ég viðurkenni svona eftir á að það var djarft hugsað verandi bæði tvö í fullri vinnu og með stórt heimili“, segir Svana í samtali.

Mbl.is/Mynd_aðsend

Svana segir í samtali að þau hafi séð alfarið sjálf um hönnunina á eldhúsinu, með hjálp teikniforritsins frá IKEA. Hún mælir þó með að láta starfsfólk IKEA sjá um að teikna lokaútkomuna til að hafa allar mælingar og pælingar réttar. „Við vorum með ákveðnar hugmyndir um hvernig við vildum hafa eldhúsið, hvað okkur fannst mikilvægt og hvað ekki. Við ákváðum til að mynda að færa hurð sem var í miðjuna á eldhúsinu til að fá háa skápa þar og koma fyrir ísskáp og búrskáp. Ég vildi ekkert endilega hafa tækjaskáp í horninu, fannst það loka eldhúsinu svo mikið og valdi því frekar að hafa það horn opið og setja hillur í staðinn þar sem ég gæti haft smá pláss fyrir skraut og annað skemmtilegt sem má gjarnan sjást. Ég fékk dásamlegu vinnufélaga mína með mér í lið að setja saman alla skápana og svo fengum við smið í lið með okkur við að koma upp öllum skápum og slíkt, en ég skrúfaði saman flest allar skúffur sjálf á meðan maðurinn minn lauk uppsetningunni, það var krefjandi en lærdómsríkt ferli skal ég segja ykkur“, segir Svana.

Mbl.is/Mynd_aðsend

Var einhver áskorun í ferlinu? „Áskorunin var klárlega tímaramminn, en við þurfum að vera búin að losa hitt húsið okkar, flytja, vinna og framkvæma allt í nýja húsinu á þrem vikum. Auðvitað var ekki allt tilbúið og fullt af smáatriðum eftir, en við kláruðum alla stóra pósta á þessum vikum. Það sem hjálpaði mikið til var öll undirbúningsvinnan, en hún skiptir miklu máli, ásamt því að vera skipulagður og hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem þarf að framkvæma. Það að vera búin að panta allt sem til þurfti og undirbúa allt sem hægt var sparaði okkur mikinn tíma. Við hefðum í raun ekki viljað gera neitt öðruvísi hvað varðar skipulag á t.d. eldhúsinu - en við erum mjög ánægð með það og vinnuaðstaðan er mjög rúmgóð og nóg af skápaplássi. Í framtíðinni myndi okkur langa að fjárfesta í steinplötu á bæði eyjuna og eldhúsbekkinn en við keyptum fallega plastlagða plötu með marmaraáferð þangað til sú fjárfesting verður að veruleika“, segir Svana.

Mbl.is/Mynd_aðsend

Eldhúsið er bæði praktískt og fallegt og nýtist stórfjölskyldunni vel. Hér er hjarta hússins, en eldhúsið er staðsett í miðju rýmisins og því með sýn yfir alla parta hússins. „Hér safnast öll fjölskyldan saman og á notalegar stundir. Einnig finnst okkur gott að vera með helluborðið staðsett á eyjunni og vinnuplássið í kring er stórt og þægilegt. Það sem einnig er skemmtileg við eldhúsið er að það er hægt að breyta ýmsu þar með ýmsu skrauti og smá tilfærslum. Ég er búin að færa hillur, setja upp aðrar, hengja upp flísa-arinn, taka hann niður og setja spegla á bak við eldhúsborðið, skipta um ljós og einnig er ég dugleg að breyta um skraut á eyjunni“, segir Svana að lokum. Þeir sem vilja fylgjast með hugmyndaríku Svönu á Instagram geta fundið hana HÉR.

Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
Mbl.is/Mynd_aðsend
mbl.is