Elsta viskí heims boðið upp hjá Sotheby

Ljósmynd/Sotheby’s

Í byrjun október verður boðin upp afar fágæt flaska sem inniheldur elsta viskí heims.

Viskíið er frá skoska framleiðandanum Glenlivet og hefur verið geymt í eikartunnu frá árinu 1940 eða í yfir 80 ár. Hefur tunnan nú verið opnuð og mun fyrsti skammturinn fara í flöskuna sem boðin verður upp og hefur hlotið nafnið Decanter #1.

Það var arkitektinn sir David Adjaye sem fékk það hlutverk að hanna flöskuna sem kemur í eikarkassa sem á að tákna tunnuna sem viskíið var í.

Sá sem kaupir flöskuna fær ýmislegt annað með í kaupunum eins og viskísmökkun og innrammaðan tappa úr tunnunni svo eitthvað sé nefnt.

Ágóðinn rennur óskiptur til góðgerðarsjóðsins Trees for Life sem berst fyrir uppgræðslu skóglendis í Skotlandi.

Afgangurinn af viskíinu verður svo settur á 249 flöskur og geta áhugasamir sett sig í samband við Gordon & MacPhail.

Ljósmynd/Sotheby’s
mbl.is