Viskí frá Þoran distillery komið í tunnur

Úrval af íslensku viskíi mun brátt aukast en ný tegund af íslensku viskíi frá bruggverksmiðjunni Þoran fór í tunnur í fyrsta sinn á þessu ári. Aðeins ein tegund af alíslensku viskíi hefur verið fáanleg hér á landi fram að þessu en það er frá bruggverksmiðjunni Eimverki.

Inntur eftir því segist Birgir Már Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Þoran distillery, hafa fengið hugmyndina um að hefja framleiðslu á íslensku viskíi þegar hann var á ferðalagi í Skotlandi. „Þá tók ég eftir því að veður- og hitaskilyrðin í Skotlandi eru ekkert svo ólík skilyrðunum hér á Íslandi. Þá vaknaði spurningin um það hvers vegna við værum ekki líka að framleiða viskí.“

Hreint umhverfi, gott aðgengi að hráefni og græna orku segir hann vera það sem geri íslenska viskíframleiðslu vænlega til vinnings en lykilhráefnin í viskí eru korn, ger og vatn. „Að framleiða á svona hreinu landi gæti skilað sér í mjög góðu viskíi.“

Viskíið frá Þoran mun þurfa að liggja í tunnum næstu þrjú árin áður en hægt verður að selja það, að sögn Birgis. Þangað til getur fólk bragðað á íslensku gini frá Þoran, sem fæst bæði í ÁTVR og í fríhöfninni eða íslensku Limoncello sem er væntanlegt í verslanir von bráðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert