Veitingastaðurinn BÁL fær frábærar viðtökur

Hafsteinn Ólafsson og Ólöf Vala Ólafsdóttir.
Hafsteinn Ólafsson og Ólöf Vala Ólafsdóttir.

Yfir 10.000 gestir hafa lagt leið sína á veitingastaðinn Bál á Borg29 á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru frá því að staðurinn opnaði og því óhætt að segja að staðurinn hafi slegið í gegn.

Fólkið á bak við Bál, matreiðslumaðurinn Hafsteinn Ólafsson og framleiðslumeistarinn og vínþjónninn Ólöf Vala Ólafsdóttir, segja að grunnhugmyndin á bak við Bál hafi verið að þeim fannst vanta meira úrval af vínbörum og veitingastöðum sem bjóði upp á vín í hærra gæðaflokki en gengur og gerist og á sanngjörnu verði. Bál er vín- og grillbar þar sem notast er við japanskt Robata kolagrill sem gefur matnum einstakan kolagrillkeim. Við hönnun staðarins var horft til náttúrulegra efna á borð við reykta eik, marmara og kopar og eru formin mjúk og ávöl, innblásin af art deco tímabilinu.

Hafsteinn hefur átt afar farsælan feril, en hann var t.a.m. valinn kokkur ársins 2017 og vann til gull- og silfurverðlauna á Ólympíuleikum og Heimsleikum í matreiðslu með íslenska kokkalandsliðinu.

Ríflega tíundi hver gestur á Bál hefur frá opnun fengið sér Ribeye steik, enn fleiri tartar og meir en helmingur gestanna pantaði sér grillspjótin vinsælu.

mbl.is