Amerísku rifin hennar Önnu Margrétar

Anna Margrét Bjarnadóttir er búsett í Bandaríkjunum.
Anna Margrét Bjarnadóttir er búsett í Bandaríkjunum. mbl.is/Mynd aðsend

Íslensk fjölskylda í Ameríku, býður okkur að skyggnast inn í líf þeirra og deilir með okkur hreint út sagt geggjaðri uppskrift að hægelduðum bbq rifjum.

Anna Margrét Bjarnadóttir hefur verið búsett í Bandaríkjunum í tæp fimm ár ásamt eiginmanni sínum og börnum. „Þorvarði Tjörva Ólafssyni, manninum mínum, bauðst spennandi vinna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) í Washington D.C. Öll fjölskyldan var til í nýtt ævintýri en við höfum áður búið erlendis eða í tæp sex ár í Danmörku. Þegar við fluttum hingað frá Íslandi voru börnin okkar þrjú, 7, 10 og 14 ára. Elsti sonur okkar, sem er tæplega 19 ára er nýfluttur til Íslands, byrjaður í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og býr á stúdentagörðunum þar. Yngri börnin okkar tvö eru núna í 7. bekk í Middle School og í 10. bekk í High School. Covid hefur auðvitað haft mikil áhrif hér eins og víðast hvar í heiminum. Síðasta eina og hálfa árið voru allir skólar lokaðir og eingöngu fjarnám - allir heima alltaf. En sem betur fer opnuðu skólarnir aftur núna í haust og Tjörvi var að mæta í fyrsta skipti á skrifstofuna í byrjun september, eftir að hafa unnið heima í eitt og hálft ár”, segir Anna Margrét.  

Hægelduð bbq rif á ameríska vísu.
Hægelduð bbq rif á ameríska vísu. mbl.is/Kolbrún Kristjánsdóttir

Dádýr og slöngur í göngutúrum
Áður en Anna Margrét flutti til Bandaríkjanna var hún að kenna dönsku í unglingadeild í Víðistaðaskóla og vinna hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Hún hefur þó sinnt annars konar störfum eftir að hún flutti erlendis, aðallega sjálfboðastörfum og skrifum. „Það hefur líka gefið mér mikið að hafa meiri tíma til að sinna aðaláhugamálinu mínu sem er að elda mat, baka og þróa uppskriftir”, segir Anna Margrét.

„Við erum alsæl með hverfið sem við búum í. Við fluttum hingað fyrir ári síðan og búum við þjóðgarð, C&O National Park í Maryland, þar sem Great Falls fossarnir eru. Við erum alveg við skóginn og því stutt í frábærar gönguleiðir. Það hjálpaði geðheilsunni mikið á meðan allt var lokað í Covid að hafa náttúruna allt um kring og geta farið í göngutúra og hreinsað hugann og sótt orku þar. En náttúrunni fylgja líka allskonar dýr og núna fáum við oft dádýr og froska í heimsókn, krökkunum til mikillar gleði. Ég er ekki eins hrifin af slöngunum sem ég hitti stundum á göngu í skóginum. Þær eru langflestar ekki eitraðar en ég stekk stundum hæð mína þegar ég rekst á þær, nú eða er ansi fljót á göngu minni heim. Svartbirnir eru ekki á þessu svæði en maður þarf ekki að fara langt til þess að geta átt á hættu að hitta þá”, segir Anna Margrét.  

Tómið eftir sjálfsvíg
Þessa dagna er Anna Margrét að leggja lokahönd á bókina Tómið eftir sjálfsvíg – Bjargráð til að lifa með sorginni, sem er væntanleg. Bókin er persónuleg þar sem Anna Margrét deilir reynslu af því að missa ástvini úr sjálfsvígi. „Ég hef tvívegis staðið frammi fyrir sárum missi vegna sjálfsvígs. Á aðfangadag verða liðin 22 ár frá því að pabbi, Bjarni Rögnvaldsson, tók eigið líf. Hann var þá 46 ára og ég 22 ára. Fimm árum áður stytti yndislegur drengur, Ásgeir Örn Sveinsson, sér aldur. Hann var aðeins 18 ára og hluti af stórum vinahópi í Breiðholtinu. Með útgáfu þessarar bókar heiðra ég minningu þeirra”, segir Anna Margrét.

„Meginmarkmið bókarinnar er að veita styrk þeim lesendum sem hafa nýlega misst ástvin úr sjálfsvígi eða eru enn að takast á við sorg í kjölfar slíks andláts. Í bókinni  er tekist á við djúpar tilfinningar á mismunandi stigum í sorgarferlinu. Annað markmið bókarinnar er að varpa ljósi á hversu mismunandi einstaklingarnir eru sem falla frá á þennan hátt og hversu ólíkar aðstæður þeirra hafa verið. Hvert tilfelli er einstakt. Tómið eftir sjálfsvíg er byggð á viðtölum við fjölbreyttan hóp aðstandenda. Lítið er til um þetta efni á íslensku. Með útgáfu þessarar bókar er þeirri miklu þörf vonandi mætt. Í henni er einnig að finna kafla með lýsingum sálfræðings á hvernig það sé að takast á við að missa ástvin á þennan hátt. Í lokakafla bókarinnar fjöllum við Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir um lífið með sorginni og tökum saman ýmis bjargráð fyrir syrgjendur. Vonandi reynist þessi bók gagnleg þeim sem ganga í gegnum þessa erfiðu lífsreynslu og ég vænti þess að lesandinn finni styrk í að sjá hvernig aðrir hafa tekist á við missi, sorg og tómið sem eftir situr“, segir Anna Margrét.

Brakkagen og ljósmyndasýning
Eftir að fjölskyldan flutti út hefur Anna Margrét sinnt sjálfboðastörfum fyrir Brakkasamtökin og verið formaður samtakanna síðastliðin ár. „Sjálf ber ég meinvaldandi breytingu í BRCA2-geni og er með sterka fjölskyldusögu um krabbamein. Ég fór í áhættuminnkandi skurðaðgerðir árið 2016, rétt áður en við fluttum til Bandaríkjanna. Um þessar mundir erum við í stjórn Brakkasamtakanna að skipuleggja fræðslufundi um ýmislegt sem tengist BRCA og arfgengu krabbameini sem verða á döfinni í vetur. Einnig er ég að vinna að undirbúningi ljósmyndasýningar um sögu Sóleyjar Bjargar Ingibergsdóttur, sem var 25 ára þegar hún fékk að vita að hún væri með BRCA2 stökkbreytingu í geni og greindist með brjóstakrabbamein tveimur árum síðar. Þórdís Erla Ágústsdóttir tekur myndirnar af Sóleyju. Sýningin verður opnuð í lok október í listagallerý Ramskram”, segir Anna Margrét.

Eldamennskan er eins og hugleiðsla
„Aðaláhugamálið mitt hefur lengi verið að elda og þróa uppskriftir og eldamennskan verið eins konar hugleiðsla í amstri dagsins og hvíld frá vinnu í tengslum við „þyngri“ efni eins og skrifum um sorg og sjálfsvígsforvarnir og vinnu í tengslum við arfgeng krabbamein. Ég deili stundum myndum og uppskriftum á instagram en aldrei að vita nema ég fari að matarblogga, nú eða gefa út matreiðslubók. Eitthvað verð ég að gera með allar þessar uppskriftir sem ég er búin að þróa og skrifa“, segir Anna Margrét.

„Við elskum að grilla og halda matarboð. Við höfum líka verið mjög heppin að margir vinir og ættingjar komu að heimsækja okkur áður en Covid skall á. Eins og ástandið er núna vitum við ekki hvenær við fáum næst gesti til okkar. En það er ljúft að ylja sér við góðar minningar um tímann fyrir Covid-19 og láta sér hlakka til góðra vinafunda síðar. Mér þykir gaman að bjóða upp á ekta amerískan mat, sérstaklega þegar Íslendingar koma í heimsókn og ég byrjaði strax á því eftir að við fluttum að prófa mig áfram. Það er virkilega gaman að bjóða upp á þessi hægelduðu BBQ rif í matarboðum og sniðugt að gera þessa uppskrift þegar það eru margir í mat. Þetta er ekki dýr matur, en þegar það er nostrað við hráefnið þá er fátt sem toppar þessa máltíð. Meðlætið skiptir líka miklu máli en ég ber rifin oftast  fram með heimalöguðu hrásalati, grilluðum maís og ofnbökuðum timíankartöflum. Ég hef stundum tekið matseðilinn alla leið með amerísku þema og haft krabbasnittur í forrétt þar sem Maryland er þekkt fyrir krabba, rifin í aðalrétt og eplarósir í eftirrétt”, segir Anna Margrét að lokum. En hægt er að fylgjast með ævintýrum og eldamennsku Önnu Margrétar á Instagram HÉR.

Amerísku rifin hennar Önnu Margrétar - Hægelduð BBQ rif

 • Svínarif (magn fer eftir fjölda gesta)
 • BBQ sósa, t.d. frá Sweet Baby Ray´s

Kryddblanda

 • 1 dl púðursykur
 • 3 hvítlauksrif, marin eða smátt skorin
 • 1 msk paprikukrydd
 • 1 msk hvítlauksduft
 • 1 tsk reykt paprikukrydd
 • 1 tsk cayenne pipar
 • 1 msk cummin
 • 1 msk ferskt timían
 • 1 laukur
 • Sítrónubörkur af hálfri sítrónu (bara guli hlutinn), smátt skorið
 • Smá hunang
 • Salt og pipar

Ofnbakaðar timíankartöflur

 • Góðar kartöflur
 • Þurrkað timían
 • Salt og pipar
 • Ólífuolía

Aðferð:

 1. Byrjið á að fjarlægja himnuna af bakhliðinni á rifjunum. Best er að byrja á að skera örlítið í hana og rífa svo af. Þetta er mikilvægt til að tryggja að rifin verði meyr og falli af beinunum.
 2. Blandið öllu kryddinu saman, (nema saltinu) og nuddið kryddlegi á rifin. Pakkið í álpappír og geymið í kæli yfir nóttina (eða nokkrum klukkutímum fyrir eldun). 
 3. Stillið ofninn á lágan hita, 135 gráður. 
 4. Pakkið rifjunum, hverju og einu, þétt inn í álpappír og setjið á ofnplötu.
 5. Hægeldið rifin í ca. 4 og ½ klukktíma.
 6. Takið rifin úr álpappírnum, leggið á ofnskúffuna og penslið vel af BBQ sósu á báðar hliðar.
 7. Hækkið hitann 220 gráður og eldið í u.þ.b. 30 mínútur í viðbót til að fá fallega grilláferð á rifin. Eða setjið á útigrill þar til rifin hafa fengið fallega áferð.

Ofnbakaðar timíankartöflur

 1. Stillið ofn á 220 gráður.
 2. Skolið kartöflurnar og skerið þær í báta.
 3. Setjið í eldfast fat og stráið vel af timíani, salti og pipar og að lokum ólífuolíu yfir.
 4. Bakið í ofni í ca. 45 mínútur. Mér finnst best að baka þær frekar lengi í ofninum. Gott að hræra í þeim einu sinni til tvisvar og bæta við ólífuolíu ef þarf.
mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is