Hvetja fólk til að kjósa íslenskt

Nýverið voru stofnuð Samtök Íslenskra Eimingarhúsa, sem samanstanda af sterkvínsframleiðendum sem allir eiga það sameiginlegt að framleiða sínar vörur á Íslandi og úr íslenskum hráefnum. Megin tilgangur samtakanna er m.a. að stuðla að gæða sterkvínsframleiðslu, bæta við flóru íslenskra sterkvína, skilgreina betur hvað er íslenskt og hvað ekki og hvetja til ábyrgrar áfengisneyslu. Í samtökunum eru: Þoran Distillery, Hovdenak Distilery, Eimverk Distillery, Reykjavík Distillery, Brunnur Distillery og Hálogi Distillery.

Nú þegar styttist í að landsmenn kjósi milli hinna ýmsu stjórnmálaflokka vilja Samtök Íslenskra Eimingarhúsa minna fólk á að hvort sem það kýs til hægri eða vinstri, að kjósa alltaf íslenskt. Þannig sköpum við fleiri atvinnutækifæri og styðjum íslenskan iðnað.

„Á síðustu misserum hefur bæst mikið við úrvalið af svokölluðum „íslenskum” sterkvínum sem mörg hver merkja sig með íslenskri náttúru, sögu og menningararfi, en ef vel er að gáð eru margar þessara sterkvína framleidd að mestu erlendis, flutt hingað í stórum tönkum og þynnt niður með íslensku vatni. Með þessu teljum við að verið sé að villa fyrir neytendum og er það okkur hjartans mál að upplýsa neytandann um það hvað sé í raun íslenskt og hvað ekki, auk þess að tryggja að íslensk sterkvínsframleiðsla verði alltaf í hæsta gæðaflokki,” segir Birgir Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri Þoran Distillery en eitt af fyrstu verkum nýstofnaðra samtaka var að senda inn umsókn um verndun á vöruheitinu „íslenskt viskí / Icelandic whisky”.

Setjum X við íslenskt.

mbl.is