Sigurður keppir í Bocuse d'Or

Sigurður Laufdal
Sigurður Laufdal mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú fer fram hin virta keppni Bocuse d'Or í Lyon í Frakklandi en að þessu sinni er það Sigurður Laufdal sem keppir fyrir Íslands hönd.

Keppnin, sem alla jafna er kölluð heimsmeistarakeppnin í matreiðslu, er einstaklega áhugaverð fyrir margra hluta sakir og hafa Íslendingar átt góðu gengi að fagna undanfarin ár. 

Sigurður Laufdal, sem meðal annars vann keppnina Kokkur ársins 2011, náði 4. sæti og fékk verðlaun fyrir besta fiskréttinn í Bocuse d'Or Europe í Tallinn í október 2020.

Undirbúningur hefur staðið yfir mánuðum saman og rúmt tonn af eldhúsáhöldum og tækjum hefur verið sent til Lyon. Þjálfari Sigurðar er Þráinn Freyr Vigfússon, Bocuse d'Or-keppandi 2011, og aðstoðarmaður Gabríel Kristinn Bjarnason.

Sigurður er fjórði keppandinn í eldhúsið í Lyon í dag en hvert þátttökuland á fulltrúa í dómarateymi Bocuse d'Or og mun Sturla Birgisson dæma fyrir hönd Bocuse d'Or-akademíunnar á Íslandi.

Verða úrslitin kunngjörð þriðjudaginn 28. september. 

Hægt er að horfa á beint streymi frá keppninni inni á síðu Bocuse d'Or.

mbl.is