Söfnuðu 150 þúsund krónum

Þorleifur Gunnlaugsson mætti fyrir hönd Aðgengissjóðs Reykjavíkur ásamt Ósk Sigurðardóttur …
Þorleifur Gunnlaugsson mætti fyrir hönd Aðgengissjóðs Reykjavíkur ásamt Ósk Sigurðardóttur framkvæmdastjóra Sjálfsbjargar til að taka við ávísuninni frá Sóley Kristjánsdóttur og Hlyni Björnssyni frá Ölgerðinni sem er umboðsaðili Campari á Íslandi. Ljósmynd/Þorgeir Ólafsson

Negroni-vikan safnaði í ár fyrir Römpum upp Reykjavík en ágóði af Negroni-sölunni rann til þessa mikilvæga málefnis. Alls söfnuðust 150 þúsund krónur sem voru afhentar fulltrúum Sjálfsbjargar.

Negroni-vikan er góðgerðarátak sem fer fram um allan heim. Hér á landi tóku tuttugu staðir þátt í átakinu, sem er metþátttaka.

Erlendis voru sjö heimsþekktir barþjónar fengnir til að hanna sína eigin útgáfu af hinum klassíska Negroni og hér á landi var leitað til þriggja barþjóna sem tóku boðinu fagnandi og gerðu tilraunir með tilbrigði við klassískan Negroni en það voru Sævar yfirbarþjónn á Fjallkonunni, Alana yfirbarþjónn á Héðni og svo Ívan Svanur sem rekur Kokteilaskólann. Þau prufuðu alls kyns aðferðir eins og að eima, reykja og freyða Negroni og notuðu alls kyns tegundir af gini og vermúð en ómissandi þungamiðjan í Negroni er hinn fagurrauði Campari.

Klakavinnslan gaf sína vinnu og fór með sendingu af handskornum gæðaklaka á alla staðina svo barirnir gætu gert undurfagran Negroni og gæðaupplifun.

mbl.is