Royalistar á Ísafirði héldu glæsilega veislu

F.v. Bergþór Pálsson, Fjölnir Ásbjörnsson, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, Inga María …
F.v. Bergþór Pálsson, Fjölnir Ásbjörnsson, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, Inga María Guðmundsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir, Birna Lárusdóttir, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, Jóna Símonía Bjarnadóttir og Albert Eiríksson.

Það er fátt skemmtilegra en þegar Alberti Eiríkssyni og Bergþóri Pálssyni er boðið í veislur. Albert deilir skemmtilegum sögum og uppskriftum inni á blogginu sínu Albert eldar og nú síðast fór hann í glæsilega veislu á Ísafirði.

Ladies who Lunch er félag vinkvenna á Ísafirði sem halda stundum „konunglega“ fundi í anda royalista. Félagið hélt elegant hátíðarfund þar sem þemað var danska konungsfjölskyldan. Í fróðlegu erindi sagði Jóna Símonía frá dönskum konungum og drottningum og rifjaði upp heimsókn Margrétar Þórhildar drottningar og föruneytis til Ísafjarðar í lok síðustu aldar og margt fleira bar á góma yfir bragðgóðum veitingum ísfirskra royalista. Húsbóndinn á heimilinu, séra Fjölnir, gegndi hlutverki butlers og gekk um beina – eftir því var tekið hve vel hann stóð sig,“ segir Albert en meðfylgjandi er uppskrift að dýrindis Sans-Rival-tertu.

Sans-Rival í hátíðarbúningi
(fermingarterta með marsípani)

Botnar:

  • 200 g möndlur
  • 200 g flórsykur
  • 6 eggjahvítur
  • (4 botnar 25-28 cm)

Aðferð:

  1. Hvíturnar stífþeyttar. Fjórða hluta sykurins blandað saman við saxaðar möndlurnar.
  2. Restinni blandað smátt og smátt saman við hvíturnar.
  3. Möndlunum blandað varlega saman við.
  4. Deiginu skipt í fjóra hluta. Smurt á vel smurðan hveitistráðan álpappír.
  5. Bakað við 180°C þar til ljósbrúnt. Hvolft strax á sykri stráðan pappír (gerir ekkert til þótt þeir brotni).
  6. Álpappírinn tekinn varlega af.

Nougat:

  • 50 g möndlur
  • 1 dl sykur

Aðferð:

  1. Sykur bræddur í potti, möndlum bætt í.
  2. Látið á plötu. Hakkað í möndlukvörn þegar kólnar.

Smjörkrem:

  • 1 dl sykur
  • 1 dl vatn
  • 4 eggjarauður
  • 200-225 g smjör

Aðferð:

  1. Sjóðið sykur og vatn (5-10 mín) þar til prufa sem sett er á teskeið stífnar ef skeiðinni er dýft í kalt vatn í glasi. Rauðurnar þeyttar þar til þær þykkna og verða gular.
  2. Sykurleginum hellt í mjórri bunu yfir, þeytt á meðan og þar til fer að kólna. Mjúkt smjörið sett saman við smátt og smátt.
  3. Núggat sett saman við kremið.
  4. Marsípan til að hylja kökuna.

Kakan sett saman:

Botn-krem-botn-krem-botn-krem-botn–krem.
Best er að setja kökuna saman daginn áður og setja marsípanið á rétt fyrir notkun.
Einnig er hægt að frysta kökuna (jafvel með marsípaninu), þó betra að frysta hana eingöngu með kreminu því marsípanið „svitnar“ þegar það er þítt.
Þykir algjört sælgæti!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert