Sagan á bak við einn vinsælasta veitingastað borgarinnar

Snorri Grétar veit fátt skemmtilegra enað þróanýja rétti.
Snorri Grétar veit fátt skemmtilegra enað þróanýja rétti. mbl.is/Ásdís

Veitingastaðurinn Monkeys í Hjartagarðinum var opnaður fyrir nokkrum vikum og er spennandi viðbót í veitingahúsaflóruna í Reykjavík. Snorri Grétar Sigfússon, yfirkokkur og einn eigenda Monkeys, tekur á móti blaðamanni í vikunni og leiðir hann í allan sannleikann um staðinn og hina nýstárlegu matargerð sem þar fer fram.

Snorri segir viðtökurnar hafa verið afar góðar.

„Það hefur gengið vonum framar og verið troðfullt síðan við opnuðum. Við förum varlega í sakirnar og hyggjumst bjóða upp á dögurð um helgar, en sem stendur er opið í hádeginu virka daga og öll kvöld. Viðskiptavinir okkar eru flestir Íslendingar enn sem komið er, en margir muna eftir Skelfiskmarkaðinum sem var hér áður.“

Maturinn japansk-perúskur

Snorri segir þau hafa gert ýmsar breytingar innanhúss og meðal annars leggi þau mikið upp úr gróðri og skemmtilegum litum.

„Við stúkuðum af hér sal sem kallast Kokteilbarinn og þar er hægt að koma inn af götunni og fá sér kokteil og svo geta matargestir auðvitað kíkt þar inn í drykk fyrir eða eftir matinn,“ segir Snorri og sýnir blaðamanni þennan einstaka bar þar sem finna má gamaldags eftirgerð af lestarvagni. Þar inni er örugglega gott að sitja og fara á trúnó yfir góðum kokteil.

Monkeys er hlýlegur og smart staður.
Monkeys er hlýlegur og smart staður. mbl.is/Ásdís

„Við vildum gera staðinn eins hlýlegan og hægt er og notuðum dökkan panel, veggfóður, gróður og alls kyns liti,“ segir Snorri og bætir við að apar og górillur séu víða sjáanleg, enda heitir staðurinn Monkeys.

„Apahugmyndin er komin frá eigandanum Óla Má Ólasyni og er nafnið skírskotun í konsept staðarins. Matargerðin og kokteilarnir eru sóttir til Japans, Perú og Amazon-frumskógarins,“ segir hann.

„Matreiðslan kallast nikkei-matargerð en hún á rætur að rekja til þess þegar Perú tók á móti innflytjendum frá Japan á nítjándu öld. Nikkeijin þýðir innflytjandi á japönsku. Þeir komu til Perú og hófu að matreiða sinn mat úr perúskum hráefnum,“ segir Snorri og segir þau að sjálfsögðu nota mikið af fersku íslensku hráefni sem henti vel í þessa tegund matreiðslu.

Flestir velja smakkseðil

„Maturinn er mestmegnis í smáréttastíl og tilvalinn til að deila. Við erum með marga rétti á matseðli og hyggjumst breyta svolítið ört. Við erum að reyna að bjóða upp á rétti sem eru ekki víða annars staðar í bænum. Við erum með smakkseðil þar sem fólk fær heilsteypta mynd af hvað við stöndum fyrir og svo er hægt að fara í fimm rétta ferðalag ef fólk vill gera vel við sig. Við erum svo líka með rétti eins og nautalund og sjávarréttasúpu,“ segir Snorri og segir langflesta gesti velja annaðhvort smakkseðilinn eða fimm réttina.

Þessi górilla setur svip á staðinn.
Þessi górilla setur svip á staðinn. mbl.is/Ásdís

„Svo leggjum við mikið upp úr grænmetisréttum og erum líka með fimm rétta veganmatseðil,“ segir Snorri og bætir við að þau séu með sérstakan kokk í eftirréttunum.

„Ólöf Ólafsdóttir var að klára konditorínám í Kaupmannahöfn og sér um eftirréttina. Við vildum bjóða upp á flotta eftirrétti,“ segir hann og segir þau full bjartsýni fyrir veturinn.

„Svo næsta sumar getur fólk setið hér úti en við erum með gott útisvæði.“

Súpa úr greninálum

Hvað er þinn uppáhaldsréttur?

„Þú mátt ekki spyrja svona, ég get ekki valið á milli,“ segir Snorri og brosir.

„Í hádeginu myndi ég klárlega fara í smáréttabox en þá eru alltaf þrír til fjórir smáréttir í boxi, en þeim er breytt daglega. Á kvöldin færi ég í smakkseðil,“ segir Snorri og segir marga sérstæða rétti á matseðlinum.

„Vatnsmelónu-carpaccio er skemmtilegur réttur. Þá tökum við vatnsmelónu og grillum hana í kolaofni á háum hita þannig að hún verður alveg svört. Hún er geymd í kæli í tvo daga og svo sneidd í þunnar sneiðar. Með þessu er sjávarsalt og vegansveppamajónes og djúpsteikt svartrót,“ útskýrir hann og segist leika sér mikið í eldhúsinu við að þróa og búa til nýja rétti.

„Það er ástæðan fyrir því að maður er að þessu; alveg eins og listamenn eða tónlistarfólk vil ég skapa eitthvað nýtt.“

Hefurðu búið til eitthvað vont?

„Já. Grenisúpu, úr greninálum. Það var ekki gott. Ég spyr mig alveg af hverju þetta átti að vera góð hugmynd,“ segir hann og hlær.

Hörpuskeljar-ceviche

Fyrir 3-4
  • 200 g hörpuskel
  • 80 g radísur
  • 2 stk skallottlaukur
  • 1 stk brennd agúrka
  • 6 stk sýrðir shitake-sveppir

Skerið hörpuskel í smáa teninga. Skerið agúrku langsum í fjóra hluta og hreinsið úr kjarnann. Því næst er hún brennd með gasbrennara eða á þurri heitri pönnu. Þegar gúrkan hefur kólnað er hún söxuð smátt niður ásamt skallottlauk, radísum og sýrðum shitake-sveppunum. Sítrus-vinaigrettunni er síðan blandað varlega saman við. Hörpuskeljartartarinn er að lokum settur í skál og smá vinaigrettu skvett yfir. Að lokum er kíví-granítan sett ofan á.

Ollie-vinaigrette

  • 65 ml sítrónusafi
  • 20 ml hvítvínsedik
  • 20 ml vatn
  • 4 g sykur
  • 4 g salt
  • 200 ml extra virgin ólífuolía

Blandið öllu nema ólífuolíunni saman. Síðan er olíunni bætt rólega saman við með töfrasprota.

Kíví-graníta

  • 3 heil kíví
  • 10 ml yuzu-safi
  • 10 ml mirin
  • safi úr hálfri límónu

Takið hýðið af kívíávöxtnum. Setjið allt saman í blandara og maukið vel saman. Maukið er síðan sett á grunna ofnplötu og inn í frysti. Þegar hún er frosin er hún skafin með gaffli svo úr verður krap.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert