Geggjaðir þorskhnakkar með stökkum parmesanhjúp

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér er dásamlega góður fiskréttur úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is sem ætti að kæta matgæðinga sem þrá eitthvað dásamlega bragðgott en létt í maga í kvöldverð.

„Ég er allt of löt að vera með fisk í matinn sem ég skil síðan aldrei þegar ég geri eitthvað undur ljúffengt eins og þessa uppskrift hér! Ég þarf klárlega að herða mig í fiskréttunum og reyna að hafa fisk að minnsta kosti einu sinni í viku,“ segir Berglind og við tökum heilshugar undir það.

Þorskhnakkar með stökkum parmesanhjúp

Fyrir um 4 manns

Fiskur

  • Um 800 g þorskhnakkar
  • 60 g pankorasp
  • 50 g rifinn parmesan
  • 60 g smjör við stofuhita
  • 1 tsk. tabasco original sauce
  • 1 msk. söxuð steinselja
  • 3 rifin hvítlauksrif
  • safi úr ½ sítrónu
  • salt, pipar, hvítlauksduft
  1. Skolið og þerrið fiskinn. Smyrjið eldfast mót og raðið þorskhnökkunum í mótið (ég skar hvert flak niður í tvo bita). Kryddið vel með salti og pipar.
  2. Blandið raspi, parmesan, smjöri, tabasco, steinselju, hvítlauk og sítrónusafa saman í skál. Best er að hnoða saman í höndunum og krydda til með salti, pipar og hvítlauksdufti. Ég notaði um 1 tsk. af hvítlauksdufti og salti og eins og ½ tsk. af pipar.
  3. Setjið vel af parmesanblöndu yfir hvert fiskstykki.
  4. Bakið við 200°C í 12-15 mínútur (eftir þykkt fiskbitanna).

Kartöflur

  • Um 600 g smælki
  • ólífuolía
  • salt, pipar, hvítlauksduft
  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Skerið kartöflurnar til helminga og veltið upp úr 2-3 msk. af ólífuolíu.
  3. Kryddið með um 1.tsk af salti og hvítlauksdufti og um ½ tsk. af pipar.
  4. Bakið í um 30 mínútur eða þar til kartöflurnar mýkjast.

Smjörsteiktur aspas

  • 1 ferskt aspasbúnt
  • 60 g smjör
  • salt, pipar, hvítlauksduft eftir smekk
  1. Bræðið smjörið við meðalháan hita og veltið aspasnum upp úr því og snúið reglulega.
  2. Kryddið eftir smekk og leyfið að malla þar til aspasinn mýkist.

Köld tabascosósa

  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • safi af ½ sítrónu
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. paprikuduft
  • 1 tsk. tabasco original sauce
  • pískið allt saman í skál og geymið í kæli fram að notkun.

Þá er gott að byrja á því að útbúa hjúpinn á fiskinn og leggja til hliðar á meðan þið undirbúið kartöflurnar og setjið þær í ofninn.

Þegar kartöflurnar eru komnar í ofninn passar vel að útbúa köldu sósuna, setja hjúpinn á fiskinn og koma aspasnum í eldun. Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í um 15 mínútur má bæta fisknum við og baka hvort tveggja áfram í um 15 mínútur.

Á meðan mallar aspasinn og gott er að leggja á borðið og ganga frá því sem notað var við eldamennskuna.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert