Saltkóngurinn fær að heyra það frá viðskiptavinum

Saltkóngurinn eins og hann er kallaður hefur fengið harða gagnrýni …
Saltkóngurinn eins og hann er kallaður hefur fengið harða gagnrýni fyrir hátt verðlag á veitingastaðnum sínum. Mbl.is/ Getty/@nusr_et

Munið þið eftir Salt Bae, tyrkneska kokkinum og slátraranum sem er með óvenjulegar handahreyfingar er hann kryddar matinn? Nýverið opnaði hann veitingahús og fólk er mishrifið.

Nusret Gökçe, betur þekktur sem Salt Bae, varð heimsfrægur á samfélagsmiðlum árið 2017. Hann opnaði nýverið sinn fyrsta veitingastað í London þar sem fólki er hreinlega misboðið yfir verðlaginu. Steikurnar á matseðli eru fáanlegar fyrir nokkur hundruð pund, og með 24 karata gylltu laufblaði kostar steikin meira en 700 pund eða hátt í 125 þúsund íslenskar krónur.

Mynd af kvittun frá staðnum birtist nýverið á Twitter og útlistar álagninguna nánar. Tomahawk-steik kostar um 111 þúsund krónur, gullinn hamborgari kostar tæpar 18 þúsund, burrata er á 4.500 krónur og laukblóm á litlar þrjú þúsund krónur. En það eru ekki bara steikur og borgarar sem hafa áhrif á budduna, því tvær diet-kók kosta um þrjú þúsund krónur og Red Bull einar tvö þúsund krónur – eða meira en nokkur annar kokteill á næsta bar.

Fólk var í athugasemdum á einu máli; að staðurinn væri með óvenju hátt verðlag þótt hann sé til húsa í einu vinsælasta hverfinu, Knightsbridge, sem er þekkt fyrir dýrar matarupplifanir. Nú má tíminn leiða í ljós hvort þetta hefur áhrif á hinar 38 milljónir instagramfylgjenda Salt Bae eða hvað.

mbl.is