Hið fullkomna nautagúllas og meðlætið sem toppar allt

Ljósmynd/GRGS.is

Þetta er hinn fullkomni haust- og vetrarréttur enda fátt sem toppar gott gúllas. Hér er það Berglind Guðmunds hjá Gulur, rauður, grænn og salt sem útbýr æðislegt gúllas og meðlætið toppar flest því við erum að tala um parmesankartöflumús!

Gúllas

  • 2 laukar, saxaðir
  • 3 gulrætur, saxaðar
  • 3 hvítlauksrif, saxað
  • 500 g nautgripagúllas frá Kjarnafæði
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1/4 tsk cumin (ekki kúmen)
  • 1 líter grænmetissoð (eða 1 l vatn + 1 msk grænmetiskraftur)
  • 100 g tómatpúrra
  • 2-3 msk. smjör
  • salt og pipar

Hitið smjör á pönnu og steikið lauk, hvítlauk og gulrætur í stórum potti í 1-2 mínútur eða þar til farið að mýkjast. Látið þá kjötið út í og brúnið. Bætið paprikukryddi, cumin, salti og pipar. Blandið vel saman. Bætið tómatpúrru saman við og blandið og hellið þá grænmetissoði saman við. Látið lok á pottinn og látið malla við vægan hita í 2-3 klst eða þar tilkjötið er orðið mjúkt og sósan þykknuð.

Parmesankartöflumús

  • 1 kg kartöflur
  • 75 g smjör
  • 1 pressað hvítlauksrif
  • 1 1/2 dl rjómi (eða mjólk)
  • 1/2 - 1 dl rifinn parmesanostur
  • salt og pipar

Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru eldaðar í gegn. Skrælið (frjálst) og látið í skál. Bætið smjöri strax saman við heitar kartöflurnar og stappið ásamt rjóma, hvítlauk og parmesan.

Smakkið til með salti og pipar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert