Undurfögur ostaflétta

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er kominn október sem þýðir að Ostóber sem helgaður er ostum er í garð genginn. Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is galdrar hér fram glæsilega ostafléttu sem ætti að slá í gegn á hvaða veisluborði sem er enda ákaflega fagur réttur - svo ekki sé minnst á hve bragðgóður hann er.

Bökuð ostaflétta

  • 2 x Dala Auður
  • 4 x smjördeigsplötur (keyptar frosnar)
  • 3 msk. fíkjusulta
  • 120 g pekanhnetur
  • 3 msk. púðursykur
  • 3 msk. síróp
  • ½ tsk. cayenne-pipar
  • Egg til penslunar
  • Ferskar fíkjur

Aðferð:

Afþíðið smjördeigsplöturnar, raðið tveimur saman hlið við hlið langsum og næstu tveimur í beinni línu þar fyrir ofan og klemmið saman samskeytin.

Sjóðið saman púðursykur, síróp og pipar í um 5 mínútur, saxið pekanhneturnar gróft á meðan og hellið þeim síðan saman við og hjúpið vel. Takið af hellunni og hrærið áfram þar til þær hafa drukkið sykurbráðina í sig og sykurhjúpurinn fer að storkna, geymið.

Smyrjið miðjuna á smjördeiginu með fíkjusultu og skerið um 2 cm breiðar ræmur skáhallt niður sitt hvorum megin við miðjuna (til að vefja yfir góðgætið í lokin).

Skerið ostana niður í litla bita og hrúgið yfir sultuna ásamt pekanhnetunum (geymið smá af hnetum til skrauts).

Pískið eggið og vefjið smjördeigsræmunum yfir miðjuna og penslið í framhaldinu (þá festast þær betur saman).

Bakið í 200°C heitum ofni í 20 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið vel gyllt.

Skerið ferskar fíkjur niður og raðið ofan á ostafléttuna ásamt restinni af pekanhnetunum.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »