„Gleymi aldrei vonbrigðasvipnum á Balta“

Ljósmynd/Flatey

Veitingastaðurinn Flatey fagnar um þessar mundir fjögurra ára afmæli sínu og verður haldið upp á tímamótin með ýmsum hætti. Dagleg tilboð verða alla daga vikunnar auk þess sem 500 krónur af hverri seldri pítsu renna til Barnaspítala Hringsins.

Flatey hefur átt miklum visældum að fagna en staðirnir eru orðnir fjórir talsins og nú síðast var opnað í Gamla Mjólkurbúinu á Selfossi.

Haukur Már Gestsson, einn eigenda staðarins, segir aðspurður að hann kunni ekki að útskýra vinsældirnar en Flateyjarstaðirnir hefur gengið miklu betur en nokkur þorði að vona. „Við höfum verið feikilega heppin með fólk og það er nú forsendan fyrir því sem hefur gengið vel hjá okkur. Svo eru pítsurnar ansi góðar!

Við höfðum alltaf tröllatrú á því að pítsurnar sem slíkar myndu slá í gegn hjá þeim sem yfir höfuð eru móttækilegir fyrir hugmyndinni um hina upprunalegu pítsu en ekki pítsu sem skyndibita. En við bjuggumst kannski við að þetta yrði meira jaðarsport en raunin hefur orðið.“ 

Ljósmynd/Flatey

Afmælisvikan hefst í dag, 18. október, og stendur fram á sunnudag. Fagnað verður með ýmsum hætti og tilboð daglega.

„Við fögnum með afmælisviku 18.-24. október með nýju gylliboði á degi hverjum. Við erum að tala um hluti eins og prosecco-laugardag og kærleiks-miðvikudag þar sem 500 krónur af hverri seldri pítsu fara til Barnaspítala Hringsins. Á lokadaginn, sunnudag, verða svo allar pítsur á 1.799 kr. á öllum stöðum.“

Haukur segir að mikill munur sé á pítsuhefð Napólíbúa, sem Flatey sækir í, og þeirri hefð sem skapast hefur á Vesturlöndum.

„Það má segja að Napólíbúum hafi tekist að vernda pítsuna frá klóm iðnvæðingarinnar og kröfunni um meiri hraða, skilvirkni og hagkvæmni sem hefur sumpart verið á kostnað gæða, að minnsta kosti í pítsugerð. Það var það sem heillaði okkur. Það eru til dæmis níu innihaldsefni í Flateyjar-margheritapítsu en allt að 40-50 í hefðbundinni skyndibitapítsu,“ segir Haukur en þrátt fyrir frábært gengi staðanna eru menn rólegir í tíðinni og hyggja ekki á frekari stækkanir.

„Flatey verður aldrei risakeðja. Fram undan er öðru fremur að halda áfram að betrumbæta það sem er fyrir hendi og hlúa að metnaðinum og menningunni okkar. Það er að vísu komin hávær krafa frá starfsfólki og fastagestum að setja á laggirnar Flateyjarvagninn. Þó ekki nema til að fara eina pílagrímsferð á ári til Flateyjar í Breiðafirði og Skjálfanda.“

Ljósmynd/Flatey

Haukur segir að það sé fyrst og fremst þakklæti sem stendur upp úr frá þeim fjórum árum síðan fyrsta Flatey var opnuð. „Þakklæti til gestanna og fólksins okkar. Við gleymum þó aldrei kvöldinu sem við opnuðum dyrnar á Granda. Þetta átti að vera mjúk og þægileg opnun en svo vildi til að þetta var föstudagur. Við opnuðum dyrnar án þess að segja nokkrum manni frá en klukkan fimm var komin röð út á götu og allt vitlaust. Okkur tókst naumlega að forðast stórslys og þurftum að neita heilum her fólks um borð á staðnum. Ég gleymi aldrei vonbrigðasvipnum á Baltasar Kormáki, sem þurfti að sætta sig við pítsu í takeaway-kassa þetta kvöldið,“ segir Haukur en ásamt honum eru það þeir Brynjar Guðjónsson, Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson sem eiga Flatey.

Ljósmynd/Flatey
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert