Ítölsku kjötbollurnar sem eru löðrandi í osti

Ljósmynd/Thelma Þorbergs

Ítalskar kjötbollur eiga svo sannarlega vel við á köldum vetrardögum hvort sem það rignir eða snjóar, en auðvitað má gæða sér á þessum dásamlega rétti allan ársins hring svo það sé alveg á hreinu. Þetta er stór uppskrift og dugar fyrir 4-6 manns.

Uppskriftin kemur úr smiðju Thelmu Þorbergsdóttur.

Ítalskar kjötbollur með penne pasta

5 skammtar

  • 500 g nautahakk
  • 500 g grísahakk
  • 1 stk. laukur
  • 1 stk. geiralaus hvítlaukur eða 4 hvítlauksrif
  • 200 g rifinn mozzarella frá Gott í matinn
  • 2 stk. egg
  • 50 g brauðrasp
  • 1 tsk. sjávarsalt
  • 1 tsk. pipar
  • 50 g parmesan ostur
  • 500 g penne pasta
  • 500 g tómat pastasósa
  • 120 g ferskur mozzarella
  • steinselja

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200 gráður.
  2. Setjið pastað í pott og eldið eftir leiðbeiningum á umbúðunum.
  3. Setjið hakk, lauk, hvítlauk, 100 g rifinn mozzarella, 2 egg, brauðrasp, sjávarsalt, pipar og 50 g rifinn parmesan saman í matvinnsluvél og hakkið þar til allt hefur náð að blandast vel saman.
  4. Myndið kjötbollur svipaðar að stærð og setjið í eldfast mót með smá ólífu olíu í botninn.
  5. Eldið í rúmar 20 mínútur eða þar til bollurnar eru fulleldaðar.
  6. Setjið pastasósu yfir bollurnar ásamt 100 g af rifnum mozzarella og dreifið ferskum mozzarella yfir jafnt og þétt.
  7. Setjið bollurnar aftur inn í ofn og eldið í 15 mínútur eða þar til osturinn er alveg bráðnaður.
  8. Saxið steinselju smátt niður og dreifið yfir bollurnar.
  9. Berið fram með pasta eða því sem hugurinn girnist og baquett brauði.
Ljósmynd/Thelma Þorbergs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert