Nanna sendir frá sér nýja matreiðslubók

Nanna Rögnvaldar.
Nanna Rögnvaldar.

Nanna Rögnvaldar er ókrýnd drottning íslenskra matarbókmennta en á dögunum sendi hún frá sér nýja bók sem ber titilinn Borð fyrir einn. Bókin inniheldur, eins og titillinn gefur til kynna, uppskriftir fyrir einn, sem er ágætistilbreyting – enda nýtti Nanna samkomutakmarkanir til þess að vinna bókina og elda fyrir einn.

„Bókin varð einfaldlega til vegna þess að ég er oftast að elda fyrir mig eina en hingað til hafa langflestar uppskriftir sem ég hef látið frá mér verið fyrir fleiri, af og til tvo, oftast fjóra, eins og algengast hefur verið með uppskriftir,“ segir Nanna um hugmyndina að baki bókinni. „Mér fannst bara kominn tími til þess að gera bók fyrir sjálfa mig og aðra einbúa. Og mig langaði til að láta árstíðirnar koma fram og þess vegna tók ég allar matarmyndirnar úti á svölunum mínum með mismunandi svalagróður í baksýn, eftir því hvort var vor, sumar, haust eða vetur. Veturinn var reyndar erfiðastur því það ætlaði aldrei að koma neinn snjór í fyrravetur.“

Bókin er hugsuð fyrir alla þá sem elda fyrir einn, hvort sem þeir búa einir eða ekki. „Kannski er einn á heimilinu sem er grænmetisæta eða einn sem er kjötæta og þá er hægt að finna hér einfaldar uppskriftir sem henta, hvort sem er hversdags, spari eða jafnvel um jólin. Hún er fyrir fólk sem er nýbyrjað að búa eða er óvant eldamennsku, með mörgum einföldum uppskriftum. Hún er líka fyrir fólk sem er vant að elda fyrir einn en vantar fleiri hugmyndir. Og hún er fyrir fólk sem hefur eldað fyrir fjölskylduna í mörg ár eða áratugi en býr nú eitt og kann ekki almennilega að elda litla skammta. En hún er fyrst og fremst fyrir fólk sem hefur gaman af að elda,“ segir Nanna. Bókin er jafnframt einstaklega falleg og nefnir Nanna þar sérstaklega Alexöndru Buhl, sem hannaði bókina, en Nanna tók sjálf allar ljósmyndir í henni.

Aðspurð hver sé hennar uppáhaldsuppskrift segir Nanna að því sé henni lífsins ómögulegt að svara enda hafi hún sent frá sér einar sjö eða átta þúsund uppskriftir á ferlinum og því af nógu að taka. „En ef þú ert að spyrja um þessa bók, þá er það þessa stundina kannski bökuð kartafla með hnetum og gráðaosti. Eða einhver af fiskréttunum, til dæmis ofngrillaður fiskur með kapers-vinaigrettu og krömdum kartöflum. Eða kannski afrísk kjúklingasúpa,“ segir Nanna að lokum og lætur hér fylgja með uppskriftina að téðri bakaðri kartöflu sem er einstaklega girnileg á að líta og bragðast ábyggilega enn betur ef við þekkjum Nönnu rétt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »