7 hlutir sem þú ættir aldrei að þvo með uppþvottalegi

mbl.is/Getty Images

Uppþvottalögur er til á velflestum heimilum enda mikið þarfaþing. Hann leysir upp fitu og er af mörgum talinn einn besti blettaeyðir sem völ er á. En stundum á uppþvottalögurinn alls ekki við og þetta eru þau tilfelli:

Blanda saman við klór. Það ætti aldrei að blanda uppþvottalegi saman við klór eða önnur hreinsiefni. Bæði getur það haft áhrif á virknina og að auki myndað hættuleg, jafnvel eitruð, efnasambönd sem eiga ekkert erindi í eldhús.

Steypujárnspottar og -pönnur. Við höfum ítrekað fjallað um mikilvægi þess að húða steypujárnsáhöld og hversu mikilvægt það er. Þar sem uppþvottalögurinn er sérlega fituleysandi skyldi aldrei nota uppþvottalög á slík áhöld sem verið er að byggja upp góða húð á.

Mokkakanna. Það sama gildir hér. Framleiðendur mæla með því að slík áhöld séu eingöngu skoluð með vatni.

Uppþvottavélar. Það er gömul saga og ný að það fer allt í tóma vitleysu þegar uppþvottalögur er settur í uppþvottavél. Hreinsiefnin sem notuð eru í slíkar vélar byggja á töluvert ólíkri formúlu sem freyðir ekki líkt og uppþvottalögurinn en margir kannast eflaust við að hafa notað uppþvottalög í neyð með ansi freyðandi afleiðingum.

Þvottavélar. Hér gildir það sama og að ofan. Þvottavélar ráða alls ekki við uppþvottalög.

Bíllinn. Uppþvottalögur er fremur sterkur og getur hreinlega skemmt lakkið. Splæsið fremur í góða bílasápu sem fer vel með lakkið.

Andlitið á þér. Það gefur eiginlega augaleið eftir upptalninguna hér að ofan að uppþvottalögur er allt of sterkur fyrir húðina. Að því sögðu mælum við að sjálfsögðu með að þið notið hanska í uppvaskið til að verja húðina á höndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert