Bökuð kartafla með magnaðri fyllingu

Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Í nýútkominni bók Nönnu Rögnvaldar, Borð fyrir einn, er að finna þessa æðislegu uppskrift að bakaðri kartöflu sem hægt er að borða eina eða sem meðlæti.

„Bakaðar og fylltar kartöflur eru einstaklega einfaldur og góður réttur sem hægt er að breyta á óteljandi vegu þótt grunnaðferðin sé sú sama. Hér er fyllingin gráðaostur og hnetur en það má líka nota pítsufyllingu (tómata, pepperóní og basilíku), kryddaðar niðursoðnar baunir af ýmsu tagi, stökksteikt beikon blandað grænmeti, túnfisksalat eða túnfisk, kryddjurtir og kotasælu, steikt hakk og ost – já, eiginlega bara flest sem manni dettur í hug,“ segir Nanna um uppskriftina sem ætti engan að svíkja.

Bökuð kartafla

  • 1 bökunarkartafla, um 250 g
  • 1 msk. olía
  • 50 g blámygluostur
  • 3-4 valhnetur
  • 1 tsk. ferskt timjan, saxað, eða ¼ tsk þurrkað
  • salt
  • 2-3 msk. nýrifinn parmesanostur

Hitaðu ofninn í 200°C. Pikkaðu kartöfluna með gaffli á nokkrum stöðum. Helltu olíunni í lítið eldfast mót, veltu kartöflunni upp úr henni og bakaðu hana svo í um 1 klst., eða þar til prjónn sem stungið er í hana rennur auðveldlega í gegn. Taktu hana þá út og hækkaðu hitann í 225°C. Skerðu djúpan kross ofan í kartöfluna, taktu pottaleppa eða aðra hlíf og ýttu þétt á hvern fjórðung, alla í einu, þannig að krossinn opnist vel. Myldu ostinn, grófsaxaðu hneturnar og hrærðu þessu saman við timjan og salt.

Settu fyllinguna í kartöfluna – hún má alveg hrynja dálítið út í formið – og stráðu parmesanosti yfir. Settu aftur í ofninn og bakaðu í um 15 mínútur, eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit og kartöfluhýðið er gullinbrúnt og stökkt.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

mbl.is