Draugabollakökur að hætti Kökudísarinnar

Draugabollakökur að hætti Kökudísarinnar.
Draugabollakökur að hætti Kökudísarinnar. Mbl.is/Mynd aðsend

Hrekkjavakan er á næsta leiti og hér deilir Dögg Guðmundsdóttir, sem sýnir frá kökuskreytingum á Instagram undir nafninu Kökudísin, skemmtilegri hugmynd að bollakökum sem hægt er að skreyta fyrir daginn. Það sem til þarf eru bollakökur, smjörkrem, candy melts og kökuskraut.

Dögg mælir með að baka bollakökur að eigin vali, en leiðbeiningarnar hér fyrir neðan miðast við um tíu skreyttar kökur. „Á matarvefnum má finna margar uppskriftir að bragðgóðum bollakökum en auðvitað er líka alltaf hægt að nota Betty Crocker-kökumix. Ef ég hef ekki tíma til að baka bollakökur frá grunni finnst mér gott að nota Devil's Food-kökumixið fyrir súkkulaðibollakökur og Velvety Vanilla fyrir vanillukökur. Ég set deigið í bollakökuform um hálfa leið upp og baka eftir leiðbeiningunum sem gefnar eru á pakkanum,“ segir Dögg.

Einfalt vanillusmjörkrem

 • 350 g smjör, við stofuhita
 • 350 g flórsykur
 • 1,5 tsk vanilludropar
 • svartur matarlitur og aðrir litir að eigin vali (mér finnst best að nota gelmatarliti til að lita smjörkrem)

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið vel í hrærivél á miklum hraða þar til það verður létt og ljóst. Þetta tekur nokkrar mínútur og gott er að skafa a.m.k. tvisvar meðfram hliðunum á skálinni.
 2. Hægið á hrærivélinni og bætið flórsykri og vanilludropum saman við. Aukið hraðann aftur og þeytið í nokkrar mínútur í viðbót þar til smjörið og flórsykurinn hefur blandast vel saman. Gott er að skafa aftur meðfram hliðunum á skálinni a.m.k. tvisvar.
 3. Litið smá af smjörkreminu svart til að nota í augu og munn á draugunum og litið afganginn af kreminu að vild.

Draugar úr candy melts

 • 100 g hvítt candy melts
 • svart smjörkrem

Aðferð:

 1. Bræðið candy melts í skál í örbylgjuofni, 30 sekúndur í senn og hrært á milli þar til allt hefur bráðnað.
 2. Setjið bökunarpappír á skurðarbretti.
 3. Takið eina teskeið af candy melts og setjið á pappírinn.
 4. Rennið teskeiðinni snögglega í smá sveig til hliðar og dreifið úr til að búa til drauginn.
 5. Endurtakið fyrir þann fjölda af bollakökum sem þið eruð með. Gott er að gera nokkra aukadrauga ef einhverjir skyldu brotna þegar þeir eru settir á kökurnar.
 6. Setjið skurðarbrettið með draugunum í ísskáp í nokkrar mínútur svo þeir harðni.
 7. Setjið svart smjörkrem í sprautupoka og klippið lítið gat á pokann (hér má líka nota mjög lítinn hringlaga sprautustút).
 8. Takið skurðarbrettið út úr ísskápnum og sprautið lítil augu og munn á draugana.

Samsetning:

 1. Sprautið kreminu á bollakökurnar með sprautustút að eigin vali. Ég notaði stút frá Ateco nr. 869.
 2. Dreifið kökuskrauti yfir smjörkremið.
 3. Setjið einn draug ofan á hverja köku.
 4. Að lokum má klippa stafina B-O-O út úr kartoni og líma á tannstöngla til að skreyta eina eða fleiri kökur með.
 5. Njótið!
Mbl.is/Mynd aðsend
Mbl.is/Mynd aðsend
Mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is