Jóladagatal sem allir matgæðingar verða að eignast

Hlédís Sveinsdóttir
Hlédís Sveinsdóttir

Frumkvöðullinn Hlédís Sveinsdóttir hefur sett í sölu jóladagatal sem er að okkar hógværa mati það allra svalasta sem sést hefur hér á landi.

Um er að ræða dagatal sem inniheldur íslenskt matarhandverk frá smáframleiðendum. Hægt er að fá tvær útgáfur, annars vegar dagatal með 24 númeruðum gjöfum og hins vegar öskju með tólf gjöfum sem Hlédís segir að sé fullkomið fyrir fyrirtæki í leit að skemmtilegum starfsmannagjöfum.

„Ég er búin að ganga með þetta í maganum í nokkur ár, alveg síðan ég uppgötvaði hversu skemmtilegt það er að eiga jóladagatal á aðventunni. Ég er að vinna með smáframleiðendum, til dæmis á Matarmarkaði Íslands í Hörpu og þekki þeirra framleiðslu og vörur vel. Mér finnst þetta jóladagatal sameina svo mörg falleg gildi. Gefa sér eða öðrum gjöf, gefa eitthvað sem nýtist, styðja við smáframleiðslu og fleira. Maður er líka oft í vandræðum með hvað maður á að gefa fólkinu sem "á allt". Svona dagatal eða askjan með 12 vörum er alveg tilvalin í það,“ segir Hlédís.

Hver vara, þ.e.a.s. hver gluggi, inniheldur ævintýri fyrir bragðlaukana en allar vörurnar og framleiðendurnir eiga merkilega sögu. „Þetta er eitthvað sem gaman er að smakka og fræðast um framleiðendur og vöruna. Allir framleiðendurnir eru svokallaðar matarhetjur. Fólk og frumkvöðlar sem hefur mikla ástríðu fyrir mat og matargerð. Svo hef líka verið að taka afstöðu með því að gefa mat í gjafir, mat og matarupplifanir. Mér finnst það eiginlega fallegasta birtingarmynd gjafa. Nýtist öllum.“ 

Hægt er að kynna sér Jóladagatalið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert