Hönnun sem breytir lífi fólks

Um helgina verður haldinn markaður í Mengi á Skólavörðustíg þar sem afrakstur samstarfs íslensku hönnunarstofunnar Hugdettu við framleiðendur í Sierra Leone verður til sýnis og sölu. Verkefnið allt er hið merkilegasta en Sierra Leone er eitt fátækasta ríki veraldar sem státar af ríkri handverkshefð sem hafði að miklu leyti lagst af eftir áralangar borgarastyrjaldir sem hafa leikið landið grimmt.

Upphaf samstarfsins má rekja til velgerðarsjóðsins Aurora sem leitt hefur hjálparstarf víða um heim. Er sjóðurinn meðal annars með aðsetur í Sierra Leone þar sem neyðin er mikil. „Það er ótrúlega rík og merkileg handverkshefð í landinu en framleiðsla hafði að miklu leyti lagst af og þekkingin að hverfa. Aurora ákveður því að leiða saman íslenska hönnuði og handverksfólk frá Sierra Leone til að koma framleiðslunni í gang aftur, segir Róshildur Jónsdóttir, annar helmingur Hugdettu um tilurð verkefnisins.
„Ferlið var þó ekki svo einfalt því fyrst þurfti til dæmis að fá inn kennara og sérfræðinga til að endurræsa keramikverkstæðið sem við vinnum með. Sama með þorpið þar sem bastið er framleitt. Þar var innkoman hjá fólki engin og fólk blásnautt. Þetta fólk á bókstaflega ekki neitt en nú er allt í einu komin framleiðsla í gang aftur sem breytir öllu,“ bætir Rósa við og segist aldrei hafa trúað því að óreyndu hvað verkefni á borð við þetta geti miklu breytt. Langan tíma hafi tekið að þjálfa handverksfólkið og samskipti hafi oft og tíðum ferið æði flókin þar sem enginn var læs á vestrænar vinnuaðferðir, teikningar og annað slíkt. Við þurftum að finna leiðir til að koma hugmyndum okkar á framfæri. „Þetta var því töluvert snúið en útkoman er framar björtustu vonum og það sem meira er að megnið af andvirði vörunnar rennur beint til handverksfólksins. Það er tilgangurinn með þessu öllu saman. Restin fer svo í flutningskostnað en það reyndist flókið að flytja vörur frá Sierra Leone til Íslands.
„Það er erfitt að gera sér grein fyrir vinnunni að baki hverjum hlut. Gott dæmi er textílframleiðslan en það þarf að rækta baðmullina, tína hana, spinna í höndunum, tína rætur og jurtir til að lita baðmullina, svo er allt handofið í smárenningum milli trjáa og loks er efnið sniðið og saumað. Þetta er ótrúleg vinna og skapar atvinnu fyrir ansi marga.

Markaðurinn verður haldinn í Mengi á Skólavörðustíg um helgina og jafnframt er hægt að skoða vörurnar og kaupa inn á heimasíðunni Hugdetta.com.

Hugdetta

Hugdetta er vöru- og innanhússhönnunarfyrirtæki með aðsetur á Norðurlandi. Hjónin Róshildur Jónsdóttir og Snæbjörn Þór Stefánsson stofnuðu fyrirtækið árið 2008 og hafa hannað og framleitt sínar eigin vörur síðan og auk þess hafa þau tekið að sér verkefni á borð við innanhússhönnun og arkitektúr.

Bæði Róshildur og Snæbjörn útskrifuðust úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2006.

Nokkur af stærstu verkefnum þeirra hafa verið að hanna og byggja eigin lúxusgistingu, bæði Grettisborg í Reykjavík og Svörtuborg á Norðurlandi.

Þau hafa líka hannað almenningsrými af margvíslegum toga, allt frá skrifstofum, sviðsmyndum, börum og veitingastað í New York til barnadeildar á sjúkrahúsi svo eitthvað sé nefnt.

Stór hluti af hönnunarferli Hugdettu hefur farið í hið skemmtilega samstarf hönnunarhópsins 1+1+1 þar sem hjónin fá útrás fyrir brennandi áhuga þeirra á listrænni hönnun. Hefur hönnunarhópurinn vakið mikla athygli og sýnt verk sín víða um heim.

Um verkefnið

Aurora velgerðarsjóður hefur komið að fjölmörgum þróunarverkefnum síðastliðinn áratug í Sierra Leone, heillandi landi þar sem fólk af ólíkum trúarbrögðum býr saman í friði og sátt.

Þar sem Aurora trúir á mátt hönnunar og lista til þess að auka lífsgæði fólks er markmið sjóðsins að rækta sköpunarkraft sem flestra. Eitt mikilvægasta verkefni Auroru undanfarin ár hefur falist í að leiða saman erlenda hönnuði og handverksfólk í landinu með þá von í brjósti að samvinnan og hinn gagnkvæmi lærdómur muni hlúa að skapandi greinum í Sierra Leone og mynda þannig jarðveg sem þær ná að dafna í til langrar framtíðar.

Í Sierra Leone er rík hefð fyrir handverki á borð við tréskurð, vefnað, batik og körfu- og leirgerð. Fatasaumur og fatahönnun skipa þar einnig háan sess. Hönnun í landinu er þó á byrjunarstigi og hafa mjög fáir hönnuðir hlotið menntun í sínu fagi.

Í upphafi fékk Aurora íslenska hönnuði á borð við Hugdettu, 1+1+1, AsWeGrow og Kron Kron til samstarfs við handverksfólkið í Sierra Leone, en undanfarin ár hafa aðrir alþjóðlegir hönnuðir bæst í hópinn.

Allar vörur sem framleiddar eru í þessu samstarfi eru framleiddar undir vörumerkinu Sweet Salone. Salone er heiti Sierra Leone á kríó, sem er eitt af helstu tungumálunum sem töluð eru í landinu. „Sweet Salone“ er gælunafn heimamanna á landinu sínu.

Allar vörurnar eru merktar með sérstökum kynningarmiða um þá sem komu að framleiðslu og hönnun viðkomandi vöru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »