Baksturbók fyrir alla fjölskylduna frá Evu Laufeyju

Eva Laufey hefur sent frá sér nýja bók þar sem hún galdrar fram heimabakað góðgæti af öllum stærðum og gerðum. Bókin hefur að geyma rúmlega 80 uppskriftir sem henta við öll tilefni.

Háar og tignarlegar veislutertur, ilmandi pönnukökur og vöfflur, gómsætir brauðréttir og sætabrauð, dásamlegar marengstertur, girnilegar osta- og skyrkökur, frábærar formkökur og smákökur og litríkar bollakökur eru meðal þess sem prýðir síður bókarinnar. 

„Ég ákvað að búa til þessa bakstursbók fyrir alla fjölskylduna. Í henni eru einfaldar uppskriftir í bland við örlítið flóknari og verkefni fyrir alla fjölskylduna að leysa.

Ég og margir aðrir kynntumst því hvað baksturinn er skemmtileg afþreying fyrir alla og mikilvæg samvera þegar kórónuveiran stóð sem hæst og fjölskyldan var innilokuð saman.

Nú hafið þið uppskriftir og ég legg það í ykkar hendur að skapa ljúfar og sykursætar minningar með ykkar fólki. Ég vona að bókin veiti ykkur innblástur.

Setjið upp svuntuna og byrjið – þið getið allt!

Bókina tileinka ég stelpunum mínum, Ingibjörgu Rósu og Kristínu Rannveigu.

Þær eru uppáhalds bakararnir mínir,“ segir Eva Laufey en það er Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir sem tekur myndirnar í bókina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert