Yngsti matreiðslubókahöfundur landsins hittir í mark

Elín Heiða ásamt móður sinni, Berglindi Hreiðarsdóttur.
Elín Heiða ásamt móður sinni, Berglindi Hreiðarsdóttur.

Matreiðslubókahöfundurinn og eldhúsgyðjan Berglind Hreiðarsdóttir hefur sent frá sér sína þriðju bók og að þessu sinni rétti hún dóttur sinni, Elínu Heiðu, stjórntaumana og lét hana sjá um allan bakstur. Útkoman er hreint frábær; falleg bók sem er uppfull af frábærum uppskriftum sem allir ráða við.

„Ég fæ auðvitað alltaf allt of margar hugmyndir, þessi poppaði upp fyrir meira en ári og ég losnaði hreinlega ekki við hana úr kollinum,“ segir Berglind aðspurð hvernig það hafi komið til að hún ákvað að gera bók með dóttur sinni. „Síðan nefndi ég þetta við Elínu Heiðu í upphafi árs og hún varð mjög spennt og þá varð eiginlega ekki aftur snúið! Mér fannst líka alveg vanta á markaðinn bók fyrir krakka. Það er allt of mikið um að börn í dag séu bara föst við skjáinn en flestum börnum finnst gaman að baka og það er svo mikilvægt að þau fái aðeins að æfa sig í eldhúsinu.“

„Samstarfið gekk bara mjög vel. Auðvitað varð Elín stundum þreytt á þessu enda erfitt að vera inni að „vinna“ um hásumar þegar allir aðrir eru úti að leika. Hún stóð sig samt eins og hetja og það brutust út mikil fagnaðarlæti þegar hún kláraði síðustu uppskriftina, segir Berglind en Elín Heiða sá um alla matreiðslu á meðan móðir hennar var bak við myndavélina og sá um umbrot og hönnun bókarinnar. „Ég mátti ekkert aðstoða nema tína til „props“, vaska upp og mynda fíneríið frá henni. Hún sagði reglulega við mig: „Mamma, ÉG er að gera þessa bók“ ef ég ætlaði eitthvað að reyna að flýta fyrir.

„Síðan hlógum við stundum þegar hún hafði gert krumpaðar bollur, skreytt eitthvað aðeins skakkt eða álíka en þá sagði hún líka við mig: „Mamma, það á að líta út fyrir að barn hafi gert þessa bók er það ekki.“ Allt var þetta auðvitað rétt hjá henni og ég ætla að fá að hrósa henni fyrir að gera þetta allt svona fallegt fyrir mig að mynda þó ég hafi sannarlega stundum viljað skipta mér af – en ég stóðst mátið.“

Skemmtilegast að baka brauðmeti

„Brauðmeti verður ansi oft fyrir valinu þegar við bökum saman eins og bollur, pizzakoddar, skinkuhorn, pizzasnúðar og þess háttar. Síðan elskum við eflaust meira að baka og skreyta piparkökur, það er alveg hápunktur desember hjá stelpunum mínum. Kannski mun okkur líka takast að setja saman piparkökuhúsið í ár sem keypt var í Costco í fyrra og stelpurnar fá að skreyta það með öllu því nammi sem þar fylgir,“ segir Berglind en matarbloggið hennar Gotterí og gersemar er eitt allra vinsælasta matarblogg landsins og hefur að geyma hafsjó girnilegra uppskrifta.

Ómetanlegt samstarf

Það kom Berglindi verulega á óvart að eigin sögn hvað Elín Heiða var dugleg og einbeitt á að klára þetta. Hún hafi tekið verkefnið ótrúlega alvarlega og skilað því vel. „Hún er ótrúlega vandvirk og dugleg í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún gerir skyrköku óaðfinnanlega svo ég ætla að segja hún sé flinkust í því,“ segir Berglind en Elín Heiða segir sjálf að sér hafi komið mest á óvart hvað það taki langan tíma að búa til bók.

Berglind segir bókina vera fyrir alla þó hún sé sett upp með það í huga að börn sem kunna að lesa og þekkja aðeins til í eldhúsinu sínu geti bjargað sér sjálf með þær uppskriftir sem í henni er að finna. „Uppskriftirnar eiga það allar sameiginlegt að vera einfaldar og gómsætar og þar er ógrynni af þessum „gömlu góðu“ uppskriftum svo mömmur og pabbar mega klárlega nota hana líka.“

Bakstursráð Berglindar og Elínar Heiðu

Hvaða bakstursráð getið þið gefið fólki?
  • Lesa vel yfir uppskriftir og taka til öll hráefni áður en hafist er handa, þá gengur allt miklu betur.

Hvað á maður að baka margar sortir?

  • Eins margar og mann langar til!

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að maður borði allar smákökurnar strax?

  • Setja strax nokkrar í frysti... en samt eiginlega ekki því þær eru langbestar nýbakaðar!

Hvað á ein sort að endast lengi?

  • Mjög stutt, best að borða þær strax. Baka bara minna og oftar og njóta þeirra á meðan þær eru brakandi ferskar og ljúffengar! Flestar smákökur eru líka bestar ylvolgar með ískaldri mjólk svo þetta segir sig sjálft.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert