Ora jólabjór vekur athygli út fyrir landsteinana

Valgeir Valgeirsson bruggmeistari með Ora-jólabjórinn og aðra jólabjóra RVK bruggfélags.
Valgeir Valgeirsson bruggmeistari með Ora-jólabjórinn og aðra jólabjóra RVK bruggfélags. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ora jólabjórinn sem sækir innblástur í íslenskan jólamat, grænar baunir og rauðkál, hefur vægast sagt verið umdeildur meðal landsmanna og hafa margir verið mótfallnir því að meðlætið hafi fengið þetta nýja hlutverk. Engu að síður hefur bjórinn reynst vinsæll og var fyrsta upplag fljótt að hverfa úr verslunum. Hafa erlendir miðlar nú furðað sig á því að „grænmetisbjór“ hafi öðlast slíkar vinsældir.

Fréttastofan AFP hefur nýlega greint frá uppátæki Reykjavík Brewing sem framleiða bjórinn og þykir þar athyglisvert að fyrsti skammtur sem taldi rúmlega sex þúsund dósir hafi selst upp á nokkrum klukkutímum. Er þá sérstaklega tekið fram að Íslendingar séu ekki nema 370 þúsund í heildina.

„Jólabjór gerður úr grænum baunum og rauðkáli hefur slegið í gegn á Íslandi, og hafa búðarhillurnar tæmst á einungis örfáum klukkustunum,“ segir í frétt AFP.

Kemur þar fram að blanda grænna bauna og rauðkáls sé afar táknræn fyrir þjóðina, enda hafi lengi vel verið erfitt fyrir Íslendinga að komast í ferskmeti yfir veturinn. Er því rótgróin hefð fyrir því að borða þetta meðlæti á jólunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert