Hinn eini og sanni Brauð & Co-piparkökusnúður

Ljósmynd/María Gomez

María Gomez á Paz.is setti netheima nærri á hliðina þegar henni tókst að endurgera hina frægu snúðauppskrift Brauð & co. Brauð & co tók sig til og bætti um betur þegar María fékk afhenta uppskriftina að hinum stórbrotna piparkökusnúð sem er að gera allt vitlaust. María var að sjálfsögðu ekki lengi að baka hann og deilir hér uppskriftinni með lesendum Morgunblaðsins.

Áður en hafist er handa ítrekar María að mikilvægt sé að fylgja uppskriftinni mjög nákvæmlega og búa allt til kvöldið áður en baksturinn fer fram. Bæði piparköku- og snúðadeigið er geymt í kæli en fyllingin á volgum stað.

Snúðadeig

 • 750 g hveiti (best ef þið getið nálgast Brauð og Co-hveitið í græna pakkanum Typo 00, fæst í Brauði & Co og Krónunni)
 • 10 g fínt borðsalt
 • 112 g lífrænt ræktaður hrásykur
 • 112 g íslenskt smjör mjúkt
 • 22 g pressuger (fæst alltaf í kælinum í Fjarðarkaup og Hagkaup). Ef þið getið ekki nálgast pressuger notið þá 8 g þurrger í staðinn, en ef þið getið nálgast pressuger notið það þá frekar.
 • 1 lítið egg við stofuhita
 • 325 g vatn við stofuhita
 • Aukalega 2 egg og 1 msk. mjólk (til að pensla snúða með á eftir, ath. ekki sett í deigið)

Fylling

 • 250 g lífrænt ræktaður hrásykur
 • 250 g íslenskt smjör mjúkt
 • 250 g Odense Original-marsípan (fæst í Bónus og Hagkaup)
 • 50 g kanill
 • 30 g negull
 • 20 g engifer
 • 7,5 g hvítur pipar

Piparkaka

Hægt er að kaupa tilbúið piparkökudeig í Brauði og Co ef þið viljið sleppa við að henda í það sjálf en það er gert úr sömu uppskrift.

 • 500 g hveiti
 • 500 g púðursykur
 • 160 g íslenskt smjör
 • 2 egg við stofuhita
 • 42 g lyftiduft
 • 6 g matarsódi
 • 8 g engifer
 • 3 g kanill
 • 3 g negull
 • 2 g hvítur pipar

Snúðadeig

 1. Setjið öll þurrefni saman í hrærivélarskál og hrærið létt saman með króknum.
 2. Hrærið saman vatni við stofuhita og pressugeri og leggið til hliðar eins og í fimm mínútur.
 3. Takið þá eggið að þeim tíma liðnum og bætið út í gerblönduna og hrærið vel saman þar til vel blandað saman.
 4. Kveikið nú á hrærivélinni á hægum hraða og bætið gerblöndunni varlega saman við.
 5. Skerið svo mjúkt smjörið í teninga og bætið saman við deigið meðan vélin er í gangi, smátt og smátt.
 6. Hnoðið nú á hægum hraða í fimm mínútur og takið tímann.
 7. Aukið svo hraðann upp í hratt og hnoðið áfram í 10 mínútur og takið tímann.
 8. Sáldrið þá smá hveiti í góða stóra skál og gerið kúlu úr deiginu. Setjið kúluna ofan í skálina og plastfilmu yfir og geymið í kæli yfir nóttina, jafnvel alveg upp í sólarhring ef þið viljið.

Fylling

 1. Setjið saman sykur og marsípan í hrærivél eða blandara þess vegna og hrærið vel saman.
 2. Blandið svo hægt og rólega saman við mjúku smjörinu, smá tening í einu.
 3. Setjið næst allt kryddið út í og hrærið vel saman þar til silkimjúkt og fíngert.
 4. Setið svo í skál og breiðið plastfilmu yfir og geymið á volgum stað yfir nótt eða þar til þið ætlið að nota hana.

Piparkaka

 1. Blandið öllum þurrefnum saman í hrærivél með hnoðarann á og hrærið létt saman.
 2. Bætið svo eggjum út í en bara einu í einu.
 3. Bræðið næst smjörið og blandið saman við deigið og hnoðið saman þar til úr er orðið silkislétt og glansandi fallegt piparkökudeig.
 4. Setjið í skál og breiðið plastfilmu yfir og geymið í kæli yfir nótt.
 5. Takið svo út eins og klst áður en á að móta fígúrur úr því svo það sé auðvelt að fletja það út en gott er að sáldra smá hveiti undir deigið áður en það er flatt út.

Snúðasamsetning

 1. Hitið ofninn á 50°C hita með blæstri og takið til tvær bökunarplötur undir snúðana með bökunarpappír á.
 2. Takið nú deigið úr skálinni og sáldrið ögn af hveiti á borðið áður en þið fletjið það út og einnig ofan á deigið. Ekki hnoða það neitt, byrjið bara að fletja út jafnan ferning sem er þunnur eða eins og 0,5 cm þykkur.
 3. Ferningurinn á að vera 60 cm breiður og 75 cm langur (mikilvægt að fara eftir) eða eins þunnur og hægt er án þess að deigið verði gegnsætt.
 4. Smyrjið öllu kanil-remosinu jafnt yfir ferninginn en sleppið eins og 5 cm á endanum sem er næstur ykkur, þ.e. ekki smyrja á þá 5 cm.
 5. Rúllið svo deiginu varlega upp í pylsu en byrjið á endanum sem er fjær ykkur, ekki rúlla alveg að endanum nær ykkur heldur skiljið eftir þessa 5 cm sem remosið er ekki á.
 6. Skerið svo í snúða en hér er mikilvægt að hver snúður sé alveg 9 cm þykkur og já það er mjög þykkt og þannig á það að vera.
 7. Takið svo 5 cm endann sem þið rúlluðuð ekki upp og brettið undir snúðinn.
 8. Leggið svo 4-5 snúða á hverja plötu og ýtið létt á hvern snúð með flötum lófa svo hann fletjist ögn út.
 9. Breiðið svo viskastykki yfir snúðana og setjið í 50°C heitan ofninn til hefingar í 60 mínútur, ekki lengur.
 10. Takið piparkökudeigið á meðan snúðar hefast, fletjið það út og skerið úr því fígúrur og geymið til hliðar.
 11. Takið snúðana svo úr ofninum og hitið ofninn strax upp í 210°C á blæstri (220°C-225°C ef þú ert ekki með blástursofn).
 12. Blandið næst saman 2 eggjum og 1 msk af mjólk og penslið snúðana með blöndunni.
 13. Sáldrið vel af flórsykri yfir snúðana með sigti og ekkert vera að spara hann, gott að slá eins og tvisvar í sigtið á þessu stigi (athugið þetta er gert áður en snúðarnir fara í ofninn að bakast, ekki á eftir).
 14. Leggið nú eina piparkökufígúru stóra eða þrjár minni á miðjan snúðinn og sáldrið örlítið meira af flórsykri yfir (slá eins og einu sinni í sigtið).
 15. Stingið svo strax í 210°C heitan ofninn en gott er að setja nokkra ísmola í ofnskúffu á botninn í ofninum. Bakið í sléttar 10 mínútur en fylgist vel með snúðunum því ofnar geta verið mismunandi heitir.
 16. Leyfið snúðunum svo að standa á heitri plötunni í 10 mínútur uppi á borði og borðið þá heita.
 17. Ef þið eigið afgang er gott að frysta og hita þá upp í örbylgju í 30 sekúndur, þá verða þeir sem nýir.
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »