Humarlaus humarsúpa setur allt á hliðina

mbl.is/

Hvenær er humarsúpa humarsúpa? gæti verið spurningin hér en heitar umræður eru í gangi þessa stundina inn á Facebook hópnum Vertu á verði - eftirlit með verðlagi, þar sem ónefnd verslunarkeðja hér á landi er sögð selja humarlausa humarsúpu dýrum dómi.

Umræðurnar eru áhugaverðar að mörgu leiti. Í fyrsta lagi vegna þess að almennt virðist fólk gera ráð fyrir að humarsúpa innihaldi humar. Það þarf þó ekki alltaf að vera enda fæst bragðið með því að sjóða humarskeljarnar sjálfar.

Í öðru lagi út af verðinu. Hafa nokkrir borið saman humarsúpu frá Ora við þessa í búðinni en verðmunurinn er mikill. Sá samanburður má sín þó lítils án þess að innihald súpunnar sé skoðað. Vatn kostar nánast ekki neitt en humarskel og rjómi kosta skildinginn. Umbúðirnar eru líka mismunandi og svo mætti lengi telja.

En sitt sýnist hverjum... þarf að vera humarsúpa í humri?

mbl.is