Byrjuðu reksturinn með eina gyltu

Björgvin Þór, Petrína Þórunn Jónsdóttir, Arnþór Elí Sindrason og Sindri …
Björgvin Þór, Petrína Þórunn Jónsdóttir, Arnþór Elí Sindrason og Sindri Snær Björgvinsson í Pizzavagninum.

Hjónin Hörður Harðarson og María Guðný Guðnadóttir stofnuðu árið 1978 svínabúið í Laxárdal skammt frá Selfossi, sem nú heitir Korngrís, og byrjuðu með eina gyltu. Björgvin Þór, sonur þeirra, sér um reksturinn ásamt foreldrum sínum og eru þau með tæplega 200 gyltur. Þau hafa stundað kornrækt fyrir svínin frá aldamótum, bætt við sig kjötvinnslu og Pizzavagninum, sem Petrína Þórunn Jónsdóttir, eiginkona Björgvins Þórs, sér að mestu um reksturinn á. Pizzavagninn, „staðurinn sem kemur til þín“, eins og þau auglýsa, er á völdum stöðum í nágrannasveitum um helgar og þar eru seldar pítsur úr eigin afurðum. „Það er alltaf nóg að gera og ekki síst núna í jólasteikunum,“ segir Björgvin Þór.

Á ferðinni um helgar

Fyrir ríflega 40 árum stóð valið um að fara út í eggjaframleiðslu, kjúklingaframleiðslu eða svínarækt í Laxárdal. „Jarðnæðið býður ekki upp á mjólkurframleiðslu vegna skorts á túnum og svínarækt varð fyrir valinu af ýmsum ástæðum,“ segir Björgvin Þór. Til að byrja með hafi kornræktunin verið á um fimm hektara landi auk þess sem korn hafi verið keypt af öðrum bændum, en nú fari hún öll fram á nær 300 hekturum í Gunnarsholti, sem er í um 75 km fjarlægð.

„Við fórum í samstarf við Landgræðsluna, byrjuðum að kaupa af henni korn og fórum svo út í að leigja af henni land og húsnæði fyrir eigin ræktun.“ Björgvin Þór bætir við að kornræktuninni fylgi mikil yfirlega í sex vikur á vorin og aðrar sex vikur á haustin auk þess sem fylgjast þurfi reglulega með vexti kornsins á sumrin. Pizzavagninn hafi verið tekinn í notkun fyrir 18 árum og kjötvinnsla og -sala í Árnesi bæst við 2018. „Þróunin hefur átt sér stað hægt og rólega í fjölskyldubússtíl.“

Sláturfélag Suðurlands kaupir megnið af kjötinu en svo vinna þau og selja sjálf það sem út af stendur. „Kjötið er ekki bara beint frá býli heldur beint frá akri og ofan í maga,“ útskýrir Björgvin Þór. Þau séu með Pizzavagninn í Brautarholti, á Flúðum, í Árnesi, Reykholti, á Borg og Laugarvatni á ákveðnum tímum á föstudags- og laugardagskvöldum, ýmist hálfsmánaðarlega eða mánaðarlega. „Ætli þetta sé ekki elsti íslenski matarvagninn sem fer á milli staða. Fólk hringir og pantar og kemur svo og sækir, en ég hef reyndar ekki náð að komast á Laugarvatn í haust.“

Björgvin Þór segir ekki algengt að svínaræktendur rækti líka fóðrið og sjái jafnframt um kjötvinnsluna að hluta. „Við byrjuðum að þreifa fyrir okkur með kornræktina hérna í Laxárdal um 2000, hún fór almennilega af stað 2007 og við höfum verið sjálfbær síðan 2012.“

Til nánari skýringar segir hann að heimsmarkaðsverð á hrávöru hafi hækkað gríðarlega mikið upp úr aldamótum eftir að hafa verið frekar lágt og nær staðið í stað í áratugi. Eftir að hafa tvöfaldast í verði hafi það haldið áfram að hækka og við því hafi þurft að bregðast.

„Þá fór ég að skoða alvarlega að fara út í ræktun, ekki síst með sparnað, sjálfbærni og umhverfisvernd í huga. Landið sem við notum bindur kolefni en losar það ekki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert