Besta Söru uppskrift sem gerð hefur verið

Ljósmynd/Omnom

Við ætlum ekkert að skafa af því. Hér með opinberast það að besta og föngulegasta Sara sem við hér á matarvefnum höfum smakkað er frá Omnom.

Eftir að hafa herjað á Omnom góða stund féllust þeir (góðfúslega) á að leyfa okkur að deila uppskriftinni með lesendum. Við fullyrðum að líf ykkar verði umtalsvert betra eftir að þið prófið því hér er um að ræða eitt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða.

Ekki má gleyma gullduftinu. Takk Omnom!

Kjartan Gíslason er maðurinn á bak við bestu Sörur landsins.
Kjartan Gíslason er maðurinn á bak við bestu Sörur landsins. Ljósmynd/Omnom

„Saran er klárlega drottning jólasmákakana og mér langaði að gera henni hátt undir höfði þegar við í Omnom ákváðu að hafa hana sem aðal hráefnið í ísréttinum okkar.

Þessi Sara er samansett með franskri makkarónu uppskrift sem gerir skelina stökka og mjúka í senn. Við viljum hafa þær aðeins stærri en venjulega en það er ekkert mál að sprauta minni skeljar. Kremið er ríkt með vanillukeim sem spilar fullkomlega vel með Coffee + Milk súkkulaðinu okkar.

Persónulega finnst mér nauðsynlegt að setja extra mikið krem á þær, til að halda jafnvægi við kaffibragðið og ristuðu hnetana. Til að þess að láta þær aðeins skara fram úr á veisluborðinu mæli ég með að sprauta hóflegu mistri af ætu gullsprey,“ segir Kjartan Gíslason, súkkulaðimeistari og meðstofandi Omnom.

Drottningar Sara Omnom

Rúmlega 50 stk, miðað við 3,5 cm stærð

Makkarónurskel

 • 150 g möndlumjöl
 • 150 g heslihnetur, mjög fínt malaðar
 • 300 g flórsykur
 • 110 g eggjahvítur (ca 4 eggjahvítur)

- Sigtið saman möndlumjöl og flórsykur í skál og blandið við heslihneturnar

- Hellið eggjahvítunum yfir hnetu-sykurblönduna og blandið saman vel með sleikju og leggið til hliðar með plastfilmu yfir, til að koma í veg fyrir að það þorni.

Ítalskur marengs

 • 330 g sykur
 • 110 g vatn
 • 110 g eggjahvítur (ca 4 eggjahvítur)

- Setjið eggjahvíturnar í hrærivélaskál með þeytara.

- Setjið sykur og vatn í pott og sjóðið í 118°c

- Þegar hitin nær 115°c, byrjið að þeyta eggjahvítur á fullu

- Hægið aðeins á hraðanum á eggjahvítunum og hellið sýrópinu saman við varlega og haldið áfram að þeyta á fullu þar til kólnar, ca 10-15 mín

- Blandið saman marengs við blönduna að ofan, vel og vandlega þar til deigið fer að glansa og rennur af sjálfsdáðum.

- Setjið í sprautupoka og sprautið í 3,5 cm hringi. Látið standa í 30 mín til að mynda húð

- Hitið ofninn í 145°c

- Bakið í 8-10 mín, snúið við plötunni og bakið í ca 5 mín í viðbót

- Látið kólna. 

Vanillukremið

 • 160 g eggjarauður ( ca 8 eggjarauður)
 • 200 g  vatn
 • 300 g sykur
 • 1 stk. vanillustangir, fræin skafin úr
 • 600 g smjör, skorið í bita og við stofuhita
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 5 g salt

- Búið til sykursíróp með því að sjóða vatn og sykur saman í pott, slökkvið á suðunni og bætið vanillustöng og fræjum út í. Setjið plastfilmu yfir pottin og leyfið að standa í 20 mín.

- Sigtið og geymið vanillustöngina í sykri. Setjið eggjarauðurnar í hrærivél með þeytara og þeytið.

- Hellið sýrópinu saman við eggjarauðurnar i mjórri bunu og haldið áfram að þeyta þar til kremið er orðið þykkt. Bætið smjörinu við smátt og smátt þar til samlagast vel

- Bætið við vanilludropum og salti

- Þeytið í svolitla stund eða þar til kremið verður silkimjúkt.

- Smyrjið makkarónuskeljarnar í demantslaga turn, og sparið ekki kremið.

- Kælið vel, helst frystið áður en dýft er í bráðið súkkulaðið.

- Dýfið ofan í súkkulaðið og leggið á baka og leyfið súkkulaðinu að stífna

- Áður en borið er fram má spreyja létt yfir Sörurnar smá gull sprey til að gera þær extra glæsilegar.

Hjúpur

 • 600 g Omnom Coffee + Milk súkkulaði,brætt
 • Gullsprey, val
Ljósmynd/Omnom
Ljósmynd/Omnom
mbl.is