Kokteillinn sem kveikir í þér

Ljósmynd/Kristinn Magússon

Ferskur, einfaldur ginkokteill fyrir þá sem kunna að meta límónu og gin. Þessa uppskrift og fjölda annarra er að finna í Heimabarnum sem er bók sem áhugafólk um drykkjargerð ætti að eignast.

Heimabarinn er fáanlegur í flestum verslunum.
Heimabarinn er fáanlegur í flestum verslunum.

Upp úr aldamótunum 1800 fóru menn að átta sig á því að safi úr sítrusávöxtum ynni bug á skyrbjúg, hörgulsjúkdómi sem herjaði á sjóliða breska flotans. Í kjölfarið voru sett lög um að öll bresk skip skyldu sigla með slíkan safa innan borðs.

Á meðan hásetar skipanna drukku romm drukku yfirmenn þeirra gin og þykir líklegt að Gimlet hafi fyrst verið blandaður um borð í skipi. Nafnið Gimlet kemur líklega frá handbor sem notaður var til að bora í gegnum víntunnur um borð í skipunum.

Við mælum með að nota gin með mikla sítruseiginleika eins og Tanqueray Ten í Gimlet. Það er auðvelt að bæta við bragðtegundum í Gimlet og hægt að leika sér með jurtir, ávexti og í raun hvaða hráefni sem er, annaðhvort með því að nota bragðbætt síróp í stað sykursíróps eða setja fersk hráefni beint í hristarann.

Gimlet

  • 50 ml gin
  • 25 ml límónusafi
  • 25 ml sykursíróp

Skraut: límónubörkur

Við setjum öll hráefnin nema skrautið í hristara, fyllum hann alveg upp í topp með klaka og hristum hressilega í 10-15 sekúndur eða þar til hristarinn er orðinn vel kaldur. Þá er drykkurinn streinaður í gegnum sigti í kælt coupe-glas og skreyttur með fallega skornum límónuberki.

Ivan Svanur og Andri Davíð.
Ivan Svanur og Andri Davíð. Ljósmynd/Kristinn Magnússon
mbl.is