Hamborgarhryggur með langbestu sósunni

Ljósmynd/Linda Ben

Linda Ben á heiðurinn af þessari hátíðarmáltíð þar sem hamborgarhryggurinn frá SS leikur aðalhlutverkið og gerir það vel. Sósan er þess eðlis að þið verðið hreinlega að smakka hana enda er hún algjört sælgæti sem smellpassar með hryggnum.

Hamborgarhryggur með langbestu sósunni

  • Hamborgarhryggur með beini frá SS
  • 100 g púðursykur
  • 2 msk. dijonsinnep
  • 1 msk. hunang
  • ½ egg

Aðferð:

  1. Hægt er að elda hamborgarhrygginn með tvenns konar hætti, annaðhvort í steikarpotti inni í ofni eða í eldföstu móti (ekki með loki).
  2. Ef notaður er steikarpottur: Kveikið á ofninum og stillið á 120°C og undir+yfir-hita. Setjið steikina ofan í pottinn og hellið einum lítra af vatni í pottinn. Setjið lok á pottinn og bakið í ofni í tvo klukkutíma og 15 mínútur.
  3. Ef notað er eldfast mót: Kveikið á ofninum og stillið á 150°C. Setjið hrygginn í mótið og bætið lítra af vatni ofan í, eldið í 70 mínútur.
  4. Hellið soðinu af kjötinu og setjið það í pott.
  5. Hrærið saman púðursykur, dijonsinnep, hunang og egg (hrærið eggið saman í bolla og notið aðeins helminginn af egginu). Setjið hamborgarhrygginn á fallegt fat sem má fara inn í ofn og penslið hrygginn með blöndunni, bakið hrygginn í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til kjarnhiti steikarinnar mælist 68°C (tími fer eftir stærð).
Bakaðar gulrætur
  • 500 g gulrætur
  • 2-3 msk. ólífuolía
  • 1-2 msk. púðursykur
  • salt
Aðferð:
  1. Hreinsið gulræturnar og skerið í helminga langsum, raðið í eldfast mót.
  2. Hellið olíu yfir gulræturnar og dreifið púðursykri og örlitlu salti yfir.
  3. Bakið í ofni við 200°C í 20 mínútur.
Brúnaðar kartöflur
  • 1 kg forsoðnar kartöflur
  • 1½ dl sykur
  • 75 g smjör

Aðferð:

  1. Setjið sykur á pönnu og hitið á vægum hita þar til sykurinn er nánast allur bráðnaður (passið að hann brenni ekki, hrærið varlega í með sleif).
  2. Skerið smjörið í þrjá bita. Þegar sykurinn er nánast allur bráðnaður og ykkur finnst hann vera alveg við það að byrja að brenna, setjið þá þriðjung af smjörinu út í og hrærið saman við, setjið svo næsta smjörbita út í og hrærið saman við og svo næsta.
  3. Setjið kartöflurnar út á pönnuna (gerið það varlega og passið að karamellan slettist ekki) og veltið þeim upp úr karamellunni þar til kartöflurnar eru alveg húðaðar.
  4. Setjið í fallegt fat eða á fatið með hamborgarhryggnum.
Hamborgarhryggjarsósa
  • 200 ml af soðinu sem kemur af hryggnum
  • 500 ml rjómi
  • 2 msk. koníak
  • 1 stk. svínakraftur
  • salt og pipar
  • ½ tsk dijonsinnep
  • u.þ.b. 1 msk. maísenamjöl
  • sósulitur
  • 30 g smjör

Aðferð:

Setjið soð, rjóma og koníak saman í pott og sjóðið.

Bætið út í svínakrafti, salti og pipar og dijonsinnepi og hrærið saman við, leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur.

Bætið út í maísenamjöli og sósulit þar til þið eruð ánægð með þykktina og litinn á sósunni.

Skerið smjörið í bita og bætið út í sósuna og hrærið þar til bráðnað saman við.

Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert