Kofareykt hangilæri með klassískum uppstúf og bestu brúnuðum kartöflunum

Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Berglind Guðmundsdóttir á GRGS.is á heiðurinn að þessari uppskrift sem er eins sígild og hugsast getur og nákvæmlega eins og við viljum hafa það.

„Hangikjötið frá Kjarnafæði er allt taðreykt á gamla mátann eins og gert hefur verið í sveitum landsins allt frá því þessi frábæra geymsluaðferð var notuð fyrst,“ segir Berglind um hangikjötið því hver elskar ekki bragðið af góðu hangikjöti.

Kofareykt hangilæri með klassískum uppstúf og bestu brúnuðum kartöflunum

Hangilæri

  • 1,3 kg Kofareykt hangilæri frá Kjarnafæði

Aðferð:

  1. Setjið kalt vatn í pott og látið hangikjötið þar í þannig að vatnið nái aðeins yfir.
  2. Stillið hitann á 1-2.
  3. Stingið kjöthitamæli í hangikjötið og takið úr vatninu þegar kjarnhitinn er 67°C. Þetta tekur um 4 klukkustundir.
  4. Setjið í kæli þar til kjötið er borið fram.
  5. Mörgum þykir gott að bæta 1-2 msk af sykri eða púðursykri í vatnið meðan kjötið er að sjóða til að draga úr reykta bragðinu.
  6. Önnur aðferð er að kreista smá af sítrónu yfir hangilærið áður en það er borið fram.
  7. Gott er að elda hangikjöt kvöldinu áður en það er borið fram svo það nái að kólna vel.

Brúnaðar kartöflur

  • 1 kg litlar kartöflur
  • 125 g sykur
  • 2 msk vatn
  • 25 g smjör + 25 g í lokin (fyrir auka lúxus)
Aðferð:
  1. Látið kartöflur í pott með söltuðu vatni. Hitið að suðu og látið sjóða í 6 mínútur.
  2. Slökkvið á hitanum og látið kartöflurnar eldast áfram í vatninu þar til þær eru fulleldaðar.
  3. Hellið vatninu frá og skolið með köldu vatni. Skrælið kartöflurnar og leggið á viskustykki til að kólna algjörlega.
  4. Hellið sykri út á pönnuna og bræðið við meðalhita án þess að hræra í sykrinu á meðan.
  5. Þegar sykurinn er bráðinn og kominn með gylltan lit látið 2 msk. af vatni varlega saman við (passið að sykurinn skvettist ekki á ykkur).
  6. Hrærið sykri og vatni saman og bætið þá smjöri saman við.
  7. Þegar smjörið er bráðið og blandan byrjuð að freyða hrærið í blöndunni og bætið þá kartöflum saman við.
  8. Látið kartöflurnar liggja í létt-búbblandi karamellunni en passið að hitinn sé ekki það mikill að hún brenni.
  9. Hitið í 5 mínútur og veltið kartöflunum af og til.
  10. Bætið eftir það 25 g af smjöri saman við (má sleppa).

Uppstúfur

  • 50 g smjör
  • 50 g hveiti
  • 1 líter mjólk
  • 1/2 tsk salt
  • 2-3 msk sykur
  • smá hvítur pipar

Aðferð:

  1. Látið mjólkina í pott og hitið að suðu.
  2. Setjið smjörið út í og bræðið það saman við. Látið hveitið og smá vatn í hristikönnu og hristið það saman.
  3. Hellið því svo saman við smjörmjólkina og kryddið með salti, sykri og pipar eftir smekk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert