Hversu lengi má geyma matarafganga?

Lumar þú á afgangs mat eftir jólahátíðina?
Lumar þú á afgangs mat eftir jólahátíðina? mbl.is/Getty Images

Það eru eflaust einhverjir sem sitja með nóg af afgangs mat eftir jólin. Og ef þú ert með kalkún ennþá í ísskápnum þarftu að vita þetta.

Kalt soðið kalkúnakjöt geymist í allt að fjóra daga inni í ísskáp. En það er að mörgu að huga með afgangs kjöt eins og kalkún – hitaðu aldrei afganga oftar en einu sinni, því það getur skapað hið fullkomna umhverfi fyrir bakteríur til að vaxa og framleiða önnur eiturefni. Eins skaltu ekki láta afganga standa frammi á borðum við stofuhita í lengri tíma, taktu frekar það sem þú ætlar þér að borða og leyfðu restinni að standa inni í ísskáp.

Það má að sjálfsögðu frysta kalkúnaafganga, en þá ber að borða kjötið innan 3-6 mánaða, því eftir þann tíma geta gæðin hafa rýrnað. Best er að frysta afgangana sem fyrst til að kjötið sé sem ferskast þegar þú tekur það úr frysti. Passaðu einnig að pakka kjötinu vel inn áður en þú stingur því inn í frysti, því illa innpakkaður matur getur tapað raka og verður þar af leiðandi þurr og seigur. Síðast en ekki síst er stórsnjallt að frysta kjötið í minni einingum, eða í þeim skammtastærðum sem þú telur að þú munir nota hverju sinni.

mbl.is