Fullkominn kjúklingaréttur Læknisins

Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

Læknirinn í eldhúsinu - okkar ástkæri Ragnar Freyr Ingvarsson - deilir hér undursamlegri kjúklingauppskrift sem þið eiginlega verðið að prófa.

„Þessi kjúklingaréttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili.

Rétturinn kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum,“ segir Ragnar sjálfur um réttinn

Kjúklingur með rjómaosti, papriku og chili

Fyrir fjóra

 • 1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
 • 200 g Rjómaostur með grillaðri papriku og chili
 • 2 msk. jómfrúarolía
 • 1 msk. ras el hanout frá Kryddhúsinu
 • 1 msk. sætt paprikukrydd
 • 1 tsk. marókósk harissa
 • 1 stk. rauð papríka
 • 1 stk. gul papríka
 • 1 stk. appelsínugul papríka
 • 2 stk. hvítlauksrif
 • 1 stk. rauður chili
 • 2 msk. hvítlauksolía
 • 150 ml hvítvín
 • salt og pipar
 • 1 msk. steinselja og basil
Saffran hrísgrjón:
 • 1 bolli hrísgrjón
 • 2 msk. jómfrúarolía
 • 1⁄4 g saffran
 • salt og pipar

Meðlæti:

 • græn salatblöð
 • pikkolótómatar
 • Dala salatostur

Aðferð

 1. Setjið kjúklinginn í skál og bætið jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltið og piprið og leyfið að marinerast í um klukkustund.
 2. Skerið papríkurnar í strimla og steikið í hvítlauksolíu. Saltið og piprið og bætið svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við.
 3. Þegar grænmetið er orðið mjúkt hellið þið hvítvíninu saman við og sjóðið nær alveg niður.
 4. Leggið papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, um hálfa dós. Leggið svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á.
 5. Bakið í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn er bráðinn.
 6. Skreytið svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju.

Aðferð

 1. Saffran hrísgrjón
 2. Sjóðið hrísgrjón.
 3. Þegar þau eru næstum því tilbúin bætið þið við jómfrúarolíu og saffrani.
 4. Látið svitna saman í nokkrar mínútur.
Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is