Kvöldmaturinn sem allir ættu að elska

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Einfalt, litríkt, skemmtilegt, bragðgott og umfram allt fljótlegt. Þannig getum við súmmað upp þessa uppskrift sem þið eiginlega verðið að prófa. Og enga vegan fordóma takk. Stundum má sleppa kjöti og ef ekki þá er stórsnjallt að bæta við rifnum kjúklingi til að allt fari nú ekki á hliðina.

Það er meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á þessa uppskrift þar sem hún kynnir til sögunnar vegan majónes með chipotle bragði frá Hellmann’s sem má gjarnan hrópa húrra fyrir.

Grænmetisvefjur

Uppskrift dugar í um 10 litlar vefjur

  • Um 600 g sætar kartöflur
  • Um 300 g kúrbítur
  • Isio 4 matarolía
  • Tacokrydd
  • 1 dós svartar baunir
  • 3 avókadó
  • Pikklaður laukur (sjá uppskrift að neðan)
  • Kóríander
  • Hellmann’s Chipotle Vegan majónes
  • 10 mini vefjur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Skerið sætar kartöflur og kúrbít í litla teninga, veltið upp úr olíu og um 3 msk. af Tacokryddi.
  3. Dreifið úr grænmetinu á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið í um 25 mínútur í ofninum, snúið einu sinni til tvisvar sinnum á meðan.
  4. Sigtið baunirnar og bakið þær með grænmetinu síðustu mínúturnar í ofninum svo þær aðeins hitni.
  5. Ristið vefjurnar á pönnu og raðið inn í þær.
  6. Gott er að smyrja þær fyrst með Chipotle majónesi, setja síðan bakað grænmeti, avókadó, pikklaðan lauk, meira majónes og loks toppa með kóríander.

Pikklaður laukur

  • 3 meðalstórir rauðlaukar
  • 250 g sykur
  • 250 ml vatn
  • 250 ml borðedik
  • 3 msk. rauðrófusafi (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið laukinn í þunnar sneiðar (hringi) og setjið í krukku/skál.
  2. Sjóðið saman sykur, vatn og borðedik þar til sykurinn leysist upp. Blandið þá rauðrófusafanum saman við ef þið viljið, hann er aðeins til að fá fallegri lit á laukinn.
  3. Hellið yfir laukinn, lokið krukkunni og setjið inn í kæli yfir nótt (eða lengur).
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert