Tekur við rómuðum veitingastað 22 ára

Guðrún Ásla Atladóttir.
Guðrún Ásla Atladóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég borðaði oft á Café Riis sem krakki og unglingur en eftir að ég fór sjálf að vinna hér fann ég svaka góðu orku sem ég vil gjarnan viðhalda,“ segir Guðrún Ásla Atladóttir sem tók við rekstri hins rómaða veitingastaðar Café Riis á Hólmavík um áramótin.

Guðrún tekur við staðnum af frændfólki sínu, þeim Báru Karlsdóttur og Kristjáni Jóhannssyni, sem ráku Café Riis frá 2005. Þau gáfu henni bestu meðmæli í kveðju sinni til viðskiptavina á facebooksíðu staðarins enda Hólmvíkingur „bæði af Bæjar- og Pálsætt“.

Athygli vekur að Guðrún er ekki nema 22 ára og stendur ein í stafni rekstursins þótt hún njóti liðsinnis fjölskyldu sinnar. „Ég byrjaði að vinna hjá Báru og Kidda árið 2020. Kiddi og mamma mín eru systkinabörn og svo er ég skyld Báru í gegnum afa minn. Ég er ættuð héðan en ég er alin upp og hef dvalist lengi í Skotlandi,“ segir Guðrún.

Hún lagði stund á háskólanám í Skotlandi og útskrifaðist með BA-gráðu í arkítektúr. „Einmitt þegar faraldurinn var að bresta á. Planið var að ferðast um Evrópu og finna mér vinnu á flottri arkitektastofu en það var ekki mikið verið að ráða á þessum tíma enda allir heima að vinna. Þá hringdi ég í Báru frænku og fékk vinnu um sumarið 2020 hjá henni. Ég varð bara ástfangin af þessum stað,“ segir Guðrún.

Café Riis.
Café Riis. Ljósmynd/Aðsend

Í elsta húsi bæjarins

Hún segist hafa starfað mikið í þjónustugeiranum með námi sínu í Skotlandi, meðal annars við veislur í fínni kantinum, svo hún hafi búið að góðri reynslu. „Bára og Kiddi tóku vel á móti mér og kenndu mér vel. Staðurinn var búinn að vera til sölu í þrjú ár og ég fór að hugsa um þetta. Svo sannfærði ég mömmu og pabba um að mig langaði að kaupa Café Riis og að ég vildi fara í þennan rekstur. Þetta er fjölskyldufjárfesting en ég er samt eigandinn.“

Guðrún getur þess að Café Riis sé hálfgerð stofnun á Hólmavík. Veitingastaðurinn er rekinn í elsta húsi bæjarins sem var byggt árið 1897. Húsið var gert upp árið 1995 og því breytt í veitingastað.

Eldar fyrir 100 manns í hádeginu á virkum dögum

„Mér hefur verið tekið mjög vel enda held ég að það hafi verið mikilvægt að fá heimamanneskju til að viðhalda sögunni. Maður þekkir næstum alla hér og það hafa allir verið mjög glaðir og ánægðir með þetta.“

Hún segir enn fremur að auk bæjarbúa sé algengt að fólk úr Reykhólasveit og Búðardal sæki staðinn. Mikilvægt sé að viðhalda styrk samfélagsins, og miðstöð eins og veitingastaðurinn Café Riis sé í lykilhlutverki þar. Café Riis hefur verið í fullum rekstri á sumrin en afgreiðslutími hefur verið takmarkaður á veturna. Pítsukvöld á föstudögum hafa þó notið mikilla vinsælda. Guðrún segir að hún ætli sér ekki að breyta miklu í rekstrinum öðru en að uppfæra bókunarkerfi og auka drykkjarúrval.

Guðrún Ásla að störfum.
Guðrún Ásla að störfum. Ljósmynd/Aðsend

„Maturinn hefur alltaf verið æðislegur. Ég var að vinna í eldhúsinu í fyrrasumar og þá lærði ég alla þessa klassísku rétti sem Bára hefur verið að elda. Nú er ég að sjá um mötuneyti grunnskólans og leikskólans og fyrir Hólmadrang og ætla að hafa opið í hádeginu fyrir almenning samhliða því. Ég er þegar að elda fyrir hundrað manns og ætla að bjóða upp á heimilismat og kaffi á staðnum. Svo er hugmyndin að vera með opið þegar það eru leikir í fótboltanum og handboltanum. Ég er ung og full af orku svo það er ekkert að því að vera stanslaust á vaktinni,“ segir veitingakonan. Hún bætir við að rekstrinum fylgi Bragginn, gamla samkomuhúsið á Hólmavík, sem nýst hafi við ættarmót, tónleika, brúðkaup og fleira og geti falið í sér ýmsa möguleika.

Vinirnir furðu lostnir

Guðrún viðurkennir að endingu að margir vinir hennar og kunningjar hafi furðað sig á þessum ráðahag. Hún hafi búið í stórborg mestallt sitt líf og ferðast víða en sé nú búin að binda sig niður í smábæ. „Sumir skilja þetta ekki alveg. Þeir furða sig á því hvað ég ætli að gera á stað þar sem aðeins búa rúmlega tvö hundruð manns. Mér finnst þetta bara svo kósí. Pabbi ætlar að koma bráðlega og vera með mér og mamma og systir koma um páskana og í sumar, þær hafa báðar unnið á staðnum. Þetta verður geggjað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »