Berglind tók borðstofuna alveg í gegn

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Fagurkerinn og matarbloggarinn Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is tók borðstofuna sína í gegn og útkoman er geggjuð. Gömul húsgögn fengu að víkja fyrir nýjum en Berglind segir að langur tími hafi farið í að ákveða hvernig borðstofan ætti að líta út en útkoman sé vel þess virði.

„Við höfum búið hér í Laxatungunni í átta ár og aldrei tekið borðstofuna okkar í gegn fyrir þrátt fyrir að það sé búið að vera lengi á to-do listanum. Við höfðum haft sömu borðstofustóla í 19 ár, eða síðan við byrjuðum að búa og IKEA borðstofuborðið sem keypt var í jóladagatalinu 2012 var sannarlega búið að gera sitt gagn.

Við fluttum til Seattle í nokkur ár og þegar við fluttum heim keyptum við fokhelt hér í Laxatungunni og forgangur var settur á allt annað en dýr og fín húsgögn.“

Sidney borðstofuborð og RAM borðstofustólar úr Modern
Sidney borðstofuborð og RAM borðstofustólar úr Modern Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Hér sjáið þið gamla borðstofuborðið og 19 ára gömlu stólana okkar úr Exó. Það var heldur betur splæst á sig á unga aldri þegar byrjað var að búa en það hefur sannarlega sýnt sig að slíkar vörur endast og verð ég að viðurkenna að það var alveg erfitt að kveðja elsku stólana sem hafa reynst okkur svona vel allan þennan tíma.“

Svona leit borðstofan út fyrir breytingu.
Svona leit borðstofan út fyrir breytingu. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Ég ætla alveg að viðurkenna að það var hægara sagt en gert að finna rétta borðið og stólana og ákveða hvernig þetta ætti allt saman að vera. Við nýttum því 2021 til þess að gera þetta í nokkrum skrefum. Við sérpöntuðum borð og stóla hjá Modern síðasta sumar sem við biðum eftir í margar vikur. Síðan mætti dásemdin í haust og var svo sannarlega biðarinnar virði.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir


„Stólarnir fallegu heita RAM Wood comfort frá Kristansen & Kristansen og þeir eru dásamlega þægilegir. Borðið heitir Sidney og er líka frá Kristensen & Kristensen, það er það fallegasta sem ég hef séð. Við vorum lengi að velja stærð og lit á borði. Svart er svo mikið í tísku þessa dagana en ég hreinlega þorði ekki að fara í svo dökkt viðarborð þar sem þetta er okkar eldhús- og borðstofuborð sem við notum alla daga, oft á dag og alltaf mikið af aukabörnum hér í heimsókn og mat. Það sér alltaf meira á dökkum húsgögnum en ljósum svo við völdum okkur lakkaða eik sem er 150 cm í þvermál og keyptum tvær plötur til þess að hægt sé að stækka það upp í 250 á lengd þegar veislu skal halda.“

„Viðarrimlarnir voru akkúrat það sem við þurftum til að fullkomna þetta allt saman! Ég var alveg á báðum áttum með að taka svona alveg svarta og hafði upphaflega hugsað mér hnotu í þetta horn. Við ákváðum hins vegar að taka sjensinn og við sjáum ekki eftir því. Þeir eru einnig hluti af hljóðvistunarlausnum sem við erum að vinna í fyrir húsið allt og fengum við þá hjá Áltak.“

Gerði listaverkin sjálf

„Mig hefur lengi langað í svört hraunverk í borðstofuna og ef nú var ekki tíminn fyrir slík þá veit ég ekki hvað. Ég skoðaði því ýmislegt í þessum efnum en eftir að hafa farið á námskeið í gerð samskonar verka síðasta sumar fann ég hugrekkið og ákvað að ráðast í gerð þeirra sjálf! Hér opinbera ég því fyrir alþjóð mín fyrstu listaverk sem ég er bara nokkuð ánægð með þó ég segi sjálf frá.“

„Borðstofuljósið fengum við okkur fyrir tveimur árum í Lumex þegar borðstofupælingar voru byrjaðar að malla í kollinum og gamla ljósið alveg búið en núna loksins er búið að tengja þetta allt saman.“

 

Ljósið er úr Lumex.
Ljósið er úr Lumex. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is