Grænmetislasagna sem kroppurinn elskar

Stórkostlega gott lasagne.
Stórkostlega gott lasagne. Mbl.is/Helga Magga

Það er ekkert eins gott og lasagne sem bætir sálartetrið á köldum vetrardögum – og það er akkúrat það sem við þurfum núna. Hér er uppskrift að grænmetislasagne frá næringarráðgjafanum Helgu Möggu sem kann svo sannarlega að setja saman uppskriftir sem kroppurinn elskar.

Grænmetislasagna sem kroppurinn elskar

 • 2-3 hvítlauksrif
 • 120 g laukur (einn laukur)
 • 1 matskeið olía
 • 200 g gulrætur
 • 160 g sveppir (6-8)
 • 200 g spergilkál
 • 240 g nýrnabaunir (1 dós)
 • 1 lúka fersk basilika (eftir smekk)
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 200 ml vatn
 • 500 g pastasósa
 • 130 g tómatpúrra
 • 500 g kotasæla
 • 150-200 g edamame- og mungbauna-pastalengjur, fer eftir stærð á fati sem þú notar (ég notaði 200 g).
 • 120 g rifinn ostur
 • salt, pipar, hvítlaukskrydd, chilikrydd, oreganó, timían, um 1 tsk af hverju kryddi.

Aðferð:

 1. Byrjið á því að skera lauk og hvítlauk smátt og steikja upp úr olíunni, blandið 1 msk af grænmetiskrafti út í 100 ml af vatni og hellið út á pönnuna. Gott er að vera búinn að skera grænmetið smátt og bæta því út á pönnuna, kryddið og steikið þar til grænmetið er farið að mýkjast.
 2. Eftir um 5 mínútur er pastasósunni bætt út á ásamt nýrnabaunum, tómatpúrru og basilíku og látið malla áfram við miðlungshita í 5-10 mínútur.
 3. Kotasælunni er svo bætt út á pönnuna og slökkt undir.
 4. Takið stórt eldfast mót og byrjið á að setja þunnt lag af grænmetissósunni í botninn, svo er helmingnum af pastalengjunum raðað ofan á, svo aftur grænmetissósa, svo annað lag af pastalengjum, þriðja lagið af grænmetissósunni og að lokum er osturinn settur ofan á, mér finnst gott að hafa tvö lög af pastalengjunum en það má alveg bæta við þriðja laginu en það fer sennilega eftir stærð á eldfasta mótinu sem þú notar.
 5. Rétturinn er hitaður við 190 gráður í 30 mínútur í blástursofni.
 6. Ef þú setur þennan rétt inn í myfitnesspal hjá þér sem uppskrift er mikilvægt að muna að vigta réttinn eftir að hann kemur út úr ofninum og muna að draga þyngdina á fatinu frá lokatölunni.
mbl.is