Lúxus fiskréttur sem passar líka hversdags

„Svo einstaklega gómsætur en ótrúlega fljótlegur réttur. Ég er mögulega búin að gera þennan nokkrum sinnum á stuttum tíma en hann sló í gegn við fyrstu tilraun. Þessi er vel hæfur í fínasta matarboð eða bara á virku kvöldi þar sem við erum jú öll að reyna að borða fisk aðeins oftar er það ekki?“ segir Helena Gunnarsdóttir um þennan girnilega fiskrétt sem passar við flest tilefni.

Þorskhnakkar með parmaskinku og hvítvínsrjómasósu

Fjórir skammtar

  • 800 g þorskhnakkar
  • 1 bréf parmaskinka eða 6 sneiðar
  • 2 dl hvítvín eða vatn og smá sítrónusafi
  • 1 msk. dijonsinnep
  • 1 lítil krukka kapers
  • 2 dósir sýrður rjómi 18% frá Gott í matinn
  • salt og pipar, og smjör til steikingar

Blómkálsmús

  • 1 stk. stór blómkálshaus
  • 1 msk. smjör
  • 2 msk. hreinn rjómaostur frá Gott í matinn
  • salt og pipar

Þorskhnakkar

  1. Byrjið á að skera þorskhnakkana í um það bil sex jafna bita og vefjið sneið af parmaskinku utan um hvern bita.
  2. Hitið pönnu og bræðið dálítið smjör.
  3. Steikið bitana vel á báðum hliðum og færið upp á disk.
  4. Hellið hvítvíninu á pönnuna og látið sjóða niður um helming.
  5. Setjið sinnep og kapers ásamt sýrðum rjóma saman við og látið aðeins malla við vægan hita.
  6. Smakkið til með salti og pipar.
  7. Leggið þorskbitana út í sósuna og klárið að elda þá í gegn.
  8. Berið fram með blómkálsmús eða grænu salati.

Blómkálsmús

  1. Skerið blómkálið niður og fjarlægið stilkinn.
  2. Setjið blómkálið í pott og hellið vatni yfir.
  3. Hleypið suðunni upp og sjóðið þar til eldað í gegn og mjúkt eða í 10-15 mínútur.
  4. Hellið þá vatninu af og látið blómkálið standa í opnum pottinum á hellu með vægum hita í 5 mínútur þannig að allt vatn gufi alveg upp.
  5. Setjið smjör og rjómaost út í og maukið blómkálið með töfrasprota. Kryddið vel með salti og pipar og smakkið til.

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert