Bleiku auglýsingarnar vekja athygli

Bóndadeginum verður fagnað um land allt um helgina en þó með óhefðbundnum hætti. Þorramatur selst eins og heitar (súrar) lummur þessa dagana og er auglýstur vel á öllum helstu miðlum landsins. Ein er sú auglýsingaherferð sem vakið hefur athygli og það er herferð Goða og Kjarnafæðis sem er fagurbleik og skartar fullorðinni perluskreyttri konu sem er í hrópandi mótsögn við hefðbundnar auglýsingar þar sem skinnklæddur karlmaður sannar karlmennsku sína með því að gæða sér á súrum pungum.

Að sögn Andrésar Vilhjálmssonar, markaðsstjóra Goða og Kjarnafæðis, var markmiðið með auglýsingunum að draga upp öðruvísi mynd af þorranum í ár enda hann margt um ólíkur því sem þekkist í hefðbundu árferði þar sem samkomutakmarkanir setja ekki strik í reikninginn.

Nú er þorrinn rétt handan við hornið, en því miður er útlit fyrir að lítið verði um þorrablót að þessu sinni. Goði og Kjarnafæði sjá samt til þess að fólk geti blótað almennilega, þótt það neyðist til að gera það innan veggja heimilisins í ár.

Þorri er fjórði vetrarmánuðurinn samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Bóndadagur markar upphaf þorra, en honum lýkur um mánuði síðar, á laugardegi fyrir góu. Þorrinn og góan þóttu sérstaklega erfiðir mánuðir, enda var þá gjarnan farið að grynnka á matarforðanum. Í því samhengi er talað um að „þreyja þorrann og góuna“.

Súrmaturinn sem Íslendingar borða á þorranum í dag var í raun bara hversdagsmatur yfir allt árið hér áður. Það var ekki fyrr en á seinni hluta síðustu aldar sem hann fór að teljast hátíðamatur, þegar þorrablótin hófu innreið sína á íslensk veitingahús.

Eins og fyrr segir gengur þorraherferð Goða og Kjarnafæðis út á mikilvægi þess á að blóta almennilega. Það felur auðvitað í sér að gera vel við sig í mat og drykk, en ákveðið var að upphefja gömlu góðu íslensku blótsyrðin í leiðinni. Fjölmargar rannsóknir benda til þess að það sé hreinlega gott fyrir heilsuna að bölva hraustlega annað slagið og það er aldrei meira við hæfi en á þorranum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert