Sala á lambakjöti er aftur farin að aukast

Sala á kindakjöti virðist hafa aukist á nýliðnu ári, frá árinu á undan þegar mikill samdráttur varð. Salan virðist þó ekki hafa náð sölunni sem var 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn, en eigi að síður er nokkurt jafnvægi á milli framleiðslu og sölu á innlenda markaðnum. Þá fæst gott verð fyrir afurðir sem selja þarf úr landi.

Opinberar tölur um sölu kjöts sem birtar eru á mælaborði landbúnaðarins sýna ekki raunverulega sölu frá framleiðendum til verslana og annarra kaupenda. Ástæðan er sú að viðskipti eru skráð sala þótt sláturhús færi birgðir til kjötvinnslu, þótt fyrirtækin séu innan sömu samstæðu, ef kjötvinnslan er rekin á annarri kennitölu. Eitthvað slíkt gerðist í nóvember sem ýkti sölutölurnar. Kann að vera að það hafi verið vegna tilfærslu innan samstæðu Kjarnafæðis Norðlenska hf. sem varð til á árinu úr þessum fyrirtækjum og SAH á Blönduósi. Skráning birgða og sölu er því ekki rétt, hvorki í kindakjötsframleiðslu né öðrum kjötgreinum þar sem birgðir eru á annað borð.

Forsvarsmenn fyrirtækja á kjötmarkaði og fulltrúar bænda hafa lengi óskað eftir breytingu á skráningu þannig að hún sýni réttari mynd en talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda.

Dýrari steikur seljast betur

Verður að hafa þennan fyrirvara á við birtingu talna um sölu kjötafurða frá innlendum framleiðendum sem hér fylgir með. Menn telja til dæmis 13% aukningu ekki gefa raunhæfa mynd af söluþróun í lambakjöti þótt hún sýni vafalaust rétta tölu um sölu frá frumframleiðendum.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis Norðlenska, telur að sala á kindakjöti hafi aukist frá árinu 2020 og rekur það til þess að nokkur fjöldi ferðamanna kom sl. sumar. Segir hann að ef árið 2019 sé talið eðlilegt ár, áður en kórónuveirufaraldurinn dró úr öllum umsvifum, megi segja að ekki sé mikil framleiðsla umfram sölu á innanlandsmarkaði. Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, segir að það hafi hjálpað við sölu á dýrari hlutum lambakjöts að innfluttar nautalundir og skyldar afurðir hafi hækkað mikið í verði. Dýrari hlutar lambakjöts séu farnir að seljast betur en áður af þessum ástæðum.

Þótt fé hafi fækkað ár frá ári varð ekki nema um 100 tonna samdráttur í framleiðslu á kindakjöti á síðasta ári. Stafar það aðallega af því að meðalþungi dilka var meiri en nokkru sinni en einnig vegna þess að bændur eru að draga saman seglin og senda því fleiri gripi til slátrunar. Það síðarnefnda leiðir til minni framleiðslu síðar.

Útflutningur gengur vel

Útflutningur á umframframleiðslunni, því kindakjöti sem ekki selst á innanlandsmarkaði, hefur gengið vel, að sögn Ágústs Andréssonar, mikil eftirspurn er erlendis og ágætt verð í boði. Segir hann unnt að velja markaði sem gefa sama verð og innanlandsmarkaður. Ástæðan er mikill samdráttur í framleiðslu í Evrópu og hækkun aðfanga.

Sala á alifuglakjöti og svínakjöti frá innlendum framleiðendum minnkaði en sala á nautgripakjöti jókst, ef marka má tölur á mælaborði landbúnaðarins. Þessar greinar eru í beinni samkeppni við Evrópu og geta sveiflur í innflutningi haft áhrif á sölu innlendra afurða. Fyrstu ellefu mánuði ársins jókst innflutningur á nautgripakjöti lítillega, eða úr 635 tonnum í 666 tonn, og sala á svínakjöti úr 730 tonnum í 780 tonn.

Slæmt hljóð í sauðfjárbændum

„Heilt yfir held ég að við séum ánægð með söluna, miðað við ástandið,“ segir Unnsteinn Snorri Snorrason, verkefnastjóri hjá Bændasamtökum Íslands. Hann segir að þrátt fyrir styrkingu innanlandsmarkaðar sé veruleg óvissa með afkomu sauðfjárbænda vegna stórhækkunar á öllum aðföngum, ekki síst áburði.

„Hljóðið í bændum hefur aldrei verið jafn slæmt og núna. Fram undan eru alvarlegir hlutir, ef ekkert verður að gert,“ segir Unnsteinn og nefnir að afurðaverð til bænda hafi ekki náð því sem var fyrir fjórum árum þegar mikið verðfall varð. Bændur séu búnir að hagræða eins og mögulegt er og ekki hægt að gera meira þar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert